Einn lést og tólf slösuðust í sprengjuárás

Frá vettvangi.
Frá vettvangi. AFP

Hið minnsta einn lést og tólf slösuðust í sprengingu á fimmtudag í Karachi í Pakistan. Tvær vikur eru liðnar síðan fjórir létust í sjálfsvígsárás í sömu borg. 

Sprengingin varð í Saddar hverfi um klukkan 23 að staðartíma, 18 að íslenskum tíma. Karachi er fjölmennasta borg Pakistan. 

Lögregla segir margt benda til þess að sprengjuefni hafi verið komið fyrir í mótorhjóli sem var lagt nærri ruslagámi. 

Ekki liggur fyrir hvert skotmark sprengingarinnar var. Hinn látni var samkvæmt lögreglu gangandi vegfarandi í hverfinu. 

Í apríl létust fjórir, þeirra á meðal þrír kínverskir ríkisborgarar, þegar kona sprengdi sig upp í rútu sem flutti starfsmenn Karachi háskóla. Pakistanskir aðskilnaðarsinnar lýstu skömmu síðar yfir ábyrgð á árásinni. 

mbl.is