„Þessi tilfinning byrjar að éta mann að innan“

Jaróslav og teymið með honum munu á næstu dögum opna …
Jaróslav og teymið með honum munu á næstu dögum opna skrifstofu í kringum sjálfboðastarfið. Hann segist gera ráð fyrir að það muni auka til muna skilvirkni.

Þrátt fyrir að hitta fjölda fólks á hverjum degi og vita að allt sjálfboðastarfið undanfarnar vikur og mánuði er að skila sér til íbúa Ódessu er einmannaleikinn farinn að naga Jaróslav, en fjölskylda hans er flúin land og kærasta var kölluð í herinn. Karíne fylgdist með Eurovision og tók sérstaklega eftir stuðningi Systra við Úkraínu, en hún segir keppnina hafa verið eins og að horfa á kvikmynd frá annarri plánetu miðað við ástandið heima fyrir. 

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessa í suður­hluta lands­ins, Ser­gei í Lvív í vest­ur­hluta lands­ins og Kar­íne í borg­inni Karkív í aust­ur­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is upp­lif­un­um sín­um og greina frá því hvað efst er í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð braust út í landi þeirra.

Miðvikudagur 11. maí

Jaróslav í Ódessu

Eftir tvo eða þrjá daga munum við opna okkar eigin sjálfboðaliða skrifstofu. Hún mun auka skilvirkni okkar til muna og hjálpa okkur að aðstoða fólk í enn fleiri flokkum sem þarf aðstoð. Við tókum saman við hóp af fólki sem þekkir vel til sjálfboðastarfs og stjórnunar á slíku starfi og samskiptum við yfirvöld. Þau eru að hjálpa okkur að koma saman mjög sterku teymi.

Fljótlega munu allir vinir mínir taka þátt í að auglýsa þennan vettvang á samfélagsmiðlum. Það verður mikill heiður fyrir mig og okkur að vera hluti af þessari heild sem gerir svo mikið fyrir samfélagið og fólkið hérna.

Ég veit að stríðið tekur sinn toll af fólki og ég sé hvernig fólk breytist. Ég hef á stundum orðið fastur í eigin hugsunum um þetta. Það er hins vegar rugl að reyna að neita þessu. Á tímum sem þessum þegar þessar hugsanir sækja á mann getur verið erfitt að vera einn úr fjölskyldunni hér. Ég sé fullt af fólki og hitti marga á hverjum degi, en upplifi samt einmannaleika. Þessi tilfinning byrjar að éta mig að innan.

Ég og fjölskyldan náum stundum tíma saman í spjalli í gegnum netið. Sprengingar hafa hins vegar stundum truflað þær. Við reynum að halda uppi húmor í spjallinu og ég vona að við náum aftur að vera saman á ný. Maður getur samt ekki verið viss. Ágætt að minna alla á að gleyma ekki að hringja í eða skrifa til ættingja ykkar og vina, því maður veit aldrei hvað verður síðasta tækifærið til þess.

Ummerki eftir flugskeyti sem loftvarnir Ódessu hafa grandað.
Ummerki eftir flugskeyti sem loftvarnir Ódessu hafa grandað. Ljósmynd/Jaroslav

Síðustu dagar hafa verið erfiðir fyrir borgina okkar. Í fyrradag var stórum flugskeytum skotið á stærstu verslunarmiðstöðina í morginni og fleiri staði. Ég veit hreinlega ekki hvað þeir voru að reyna að skemma. Ég veit hins vegar að fréttirnar í Rússlandi munu segja að þetta hafi verið hernaðarlega mikilvægt skotmark.

Síðustu viku hafa flugskeyti flogið yfir borgina og sjálfur varð ég vitni að því þegar loftvarnir borgarinnar skutu niður þrjár slíkar sprengjur.

Síðast sagði ég frá því að það væru fyrstu tónleikar í langan tíma. Óheppnin eltir mann, því á sama tíma og við vorum að spila heyrðust sprengingar. Fólk fór auðvitað strax að velta fyrir sér hvað gerðist og skoða fréttir og manni leið eins og tónlistin væri bara í bakgrunni.

Karíne í Karkív

Í gær horfðum við eiginmaðurinn á Eurovision. Fyrir okkur er þetta eins og að horfa á fantasíumynd frá annarri plánetu. Það var æðislegt að sjá svona bjarta liti og það snerti okkur djúpt að sjá stuðninginn við Úkraínu frá svona mörgum þátttakendum. Við vorum sérstaklega ánægð með að sjá stuðninginn frá fulltrúum Íslands, Systur. Það snerti hjartaræturnar og þær voru mjög fallegar á sviðinu, Sigga, Beta og Elín. Söngur þeirra er melódískur og hljómfagur.

Til hamingju með vel heppnaðan flutning og að hafa komist áfram í úrslitin. Takk sérstaklega fyrir stuðninginn. Hann skiptir okkur miklu máli.

Fyrsti forseti Úkraínu eftir sjálfstæði landsins, Leonid Kravtsjúk, lést í gær 88 ára að aldri. Hann skrifaði undir sögulegt skjal þar sem Úkraína sagði sig úr Sovétríkjunum árið 1991. Þetta var endurreisn sjálfstæðis fyrir Úkraínu og við erum enn að berjast fyrir þessu sjálfstæði. Fólkið okkar greiðir dýru verði fyrir sjálfstæðið og að vera frjálst. Við munum sigra.

Í dag voru nokkrar loftárásir, en engar stórskotaliðsárásir. Sprengingarnar voru langt frá okkur. Í gær fóru loftvarnaflauturnar fyrst í gang klukkan sex um morguninn. Svo heyrðum við í stórskotaliði, en það virkaði eins og það væri úkraínski herinn að skjóta á Rússa. Í gær heyrði ég fjarlægar sprengingar þegar ég fór út að ganga með hundinn. Það er jákvætt.

Beniamin vinur Karíne mætti í hergallanum, en hann hefur verið …
Beniamin vinur Karíne mætti í hergallanum, en hann hefur verið á víglínunni síðustu vikur og verður þar líklega eitthvað áfram.

Í gær heyrði ég einnig í bekkjafélaga mínum honum Beniamin Kalapov, en hann sagðist vera á ferð í nágrenninu og spurði hvort hann gæti komið í kaffi. Við spjölluðum í nokkrar mínútur, en Beniamin var klæddur í hergalla og með hjálm. Hann er hluti af herliðinu sem ver Karkív, en hann er í svæðisbundnu undirliði úkraínska hersins. Hann er menntaður bráðaliði og bjargar þeim sem slasast. Hann er 54 ára eins og ég, en verður 55 ára í næsta mánuði. Konan hans hún Anna og dóttirin Sofía eru búnar að flýja Karkív.

Beniamin bauð sig einnig fram í herinn árið 2014 þegar stríðið braust út til að verja fjölskyldu sína og móðurjörð. Hann var þá á víglínunni í sex mánuði, en þurfti frá að hverfa vegna heilsubrests. Hann á við einhverskonar hjartavandamál að stríða og nú óttast hann að vera aftur sendur frá víglínunni.

Ég ræddi einnig við annan gamlan bekkjarfélaga í gær, hann Andrei sem býr í Bandaríkjunum. Við vorum ánægð með lögin sem Joe Biden Bandaríkjaforseti skrifaði undir 9. maí um frekari vopnasendingar. Það var mjög táknrænt. Aðalatriðið núna er að fá frekari vopn til að geta undirbúið betur varnir okkar í tíma. Við eigum í smá vandræðum með birgðir og skipulag þar sem stjórnvöld hér mættu standa sig betur í þeim efnum.

Annars er það að frétta að umferðarljós hér í Karkív eru farin að virka á ný. Borgarstjórinn sagði jafnframt að almenningssamgöngur færu að hluta til af stað að nýju í næstu viku. Hættan er þó ekki liðin hjá.

Umferðarljós í Karkív eru aftur farin að virka og almenningssamgöngur …
Umferðarljós í Karkív eru aftur farin að virka og almenningssamgöngur munu fara af stað á ný í næstu viku. Ljósmynd/Karíne

Sergei í Lvív

Sjötugasti og sjöundi dagur stríðsins. Þetta er ekki jafn taugatrekkjandi dagur og síðustu dagar. Manni líður samt eins og það sé eitthvað yfirvofandi. Í gær misstum við netsamband hluta úr degi og hættan á frekari loftárásum hékk alltaf yfir okkur.

Staðan á víglínunni er erfið um þessar mundir, en engu að síður ágæt. Hermennirnir okkar eru að gera gagnárásir og frelsa minni bæi. Hægt og rólega munum við ná landsvæðum okkar aftur. Ég þakka hernum fyrir að Rússar hafi ekki komist alla leið að borginni minni.

Eftir nokkuð viðburðalítinn dag fór ég út að ganga í nágrenninu og hitti nokkra kunningja sem ég hef ekki séð lengi. Einu sinni enn horfði ég svo á sögulega kvikmynd í kvöld.

Ég hef fulla trú á að við munum sigra stríðið. Rússar munu tapa og þeir munu skammast sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert