Sigurinn til marks um gríðarlegan stuðning

Úkraína fagnar sigrinum í gær.
Úkraína fagnar sigrinum í gær. AFP/Marco Bertorello

Sigur Úkraínu í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í gærkvöldi er merki um þann gríðarlega stuðning sem landið hefur í stríðinu gegn Rússlandi, að sögn aðstoðarframkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins (NATO).

„Ég vil óska Úkraínu til hamingju með sigurinn í Eurovision, og þetta er ekki eitthvað sem ég geri af léttúð því það sem við sáum í gær var hinn gríðarlegi stuðningur almennings um alla Evrópu og Ástralíu við hugrekki Úkraínu,“ sagði Mircea Geoana, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO, þegar hann mætti til Berlínar í morgun fyrir viðræður.

Fjallað um uppátæki Íslands

Íslensku keppendurnir voru meðal þeirra sem sýndu Úkraínumönnum stuðning upp á sviði en límmiði með fánalitum landsins var sjáanlegur á gítörum þeirra og í lok atriðisins mynduðu hver og ein þeirra hjarta með höndunum og sögðu „friður fyrir Úkraínu“ á ensku.

Breski vefmiðillinn Daily Mail fjallaði um stuðning íslensku keppandanna og birti myndskeið af endalokum atriðisins þar sem systurnar héldu uppi hjörtunum. 

mbl.is