Gagnrýnir embættismenn fyrir slæm viðbrögð

Kim Jong-Un á fundi vegna ástandsins fyrir nokkrum dögum. Hann …
Kim Jong-Un á fundi vegna ástandsins fyrir nokkrum dögum. Hann einn er ekki með grímu eins og sjá má á myndinni. AFP

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, gagnrýnir harðlega viðbrögð embættismanna í landinu við Covid-19-heimsfaraldrinum og hefur hann skipað hernum að aðstoða við að útdeila lyfjum, en Seoul hefur boðið fram hjálpargögn.

Yfir milljón manns hafa veikst í landinu og eru með „hita“ að sögn stjórnvalda. Þrátt fyrir það hefur Kim boðað útgöngubann á landsvísu til að stemma stigu við útbreiðslunni enda þjóðin óbólusett.

Fyrsta tilfellið af Covid-19 greindist í landinu á fimmtudaginn í síðustu viku. Síðan þá hefur fjöldi annarra greinst en í aðdragandanum að því höfðu margir íbúar landsins verið með óútskýrð hitaeinkenni. Síðustu tvö ár hafa yfirvöld í landinu hafnað því alfarið að faraldurinn hafi náð fótfestu í Norður-Kóreu og því er um tímamót að ræða.

Apótekum ekki haldið opnum allan sólarhringinn

Til marks um alvarleika stöðunnar hefur Kim harðlega gagnrýnt embættismenn innan heilbrigðiskerfisins og telur hann viðbrögðum þeirra til að koma í veg fyrir faraldurinn hafa verið ábótavant. Vísaði hann sérstaklega til þess að ekki hefði verið haldið úti sólarhringsafgreiðslutíma í apótekum til að dreifa lyfjum.

Skipaði hann því hernum að dreifa lyfjum til að koma smá stöðugleika á eftirspurn þeirra í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu. 

Leiðtoginn hefur nú skipað sjálfan sig sem yfirmann yfir sjúkdómsviðbrögðum og hefur hann m.a. umsjón með næstum daglegum neyðarfundum stjórnmálaráðs vegna faraldursins. 

mbl.is