Hitinn upp í 49,2 gráður á Indlandi

Fólk er beðið um að hafa varann á meðan hitastig …
Fólk er beðið um að hafa varann á meðan hitastig er svo hátt. AFP/Money Sharma

Hitabylgja geisar nú á norðurhluta Indlands og hefur hitastigið í Delí, höfuðborg landsins, farið upp í 49,2 gráður. Um er að ræða fimmtu hitabylgjuna sem geisar á svæðinu frá því í mars og hafa tíðar og skæðar hitabylgjur hafa sett líf milljóna manna úr skorðum nú í sumarbyrjun. BBC greinir frá.

Fólk hefur verið beðið um að hafa varann á meðan hitastigið er jafn hátt og raun ber vitni. Enda getur svo hár hiti haft skaðleg áhrif á viðkvæmt fólk; ungbörn, aldraða og þá sem eru veikir fyrir.

Hitastig hefur hækkað hratt nokkrum ríkjum síðustu daga, meðal annars í Himachal Pradesh sem er þekkt fyrir frekar þægilegt loftslag. Hitastig er einnig mjög hátt í Haryana, Uttarkhand, Punjab og Bihar, en gera má ráð fyrir að hitastigið muni þó eitthvað lækka á sumum svæðum, samkvæmt veðurstofu Indlands.

Hæsti meðalhiti í 122 ár 

Fyrr í þessum mánuði óskaði Narendra Modi, forsætisráherra Indlands, eftir því að ríkisstjórar landsins gerðu ráðstafanir til takmarka áhrif hitans, þegar ljóst var að hitastig var að hækka hraðar en venjulega.

Algengt er að hitabylgjur geisi á Indlandi, sérstaklega í byrjun sumars í maí og júní, en sumarið hófst mjög snemma í ár og hefur hitastigið verið mjög hátt frá því fyrsta hitabylgjan skall á í mars. Þá hefur meðalhiti marsmánaðar ekki verið hærri í 122 ár.

mbl.is