Árásir halda áfram en friðarviðræður eru settar á ís

Rússneskar hersveitir gerðu árás á þorpið Desna.
Rússneskar hersveitir gerðu árás á þorpið Desna. AFP/Sergei Supinsky

Átta létust og 12 særðust í dag þegar rússneski herinn gerði árás á þorpið Desna í norðurhluta Úkraínu þar sem herstöð er.

Oleksandr Ivchenko, talsmaður neyðarþjónustunnar á svæðinu, staðfestir fregnirnar í samtali við fréttastofu AFP.

Þá voru að minnsta kosti 10 drepnir í árás á Severodonetsk, borg í austurhlutanum sem er enn undir stjórn Úkraínumanna. Ríkisstjóri Lúhansk-héraðsins, þar sem borgin er, segir að rússneskar hersveitir haldi úti linnulausum árásum.

Samningaferlið í biðstöðu

Stjórnvöld Úkraínu segja að friðarviðræður við Rússa hafi verið settar á ís þar sem rússneskum stjórnvöldum tókst ekki að finna stað fyrir málamiðlanir.

„Samningaferlið er í biðstöðu,“ sagði Mik­haíló Podolí­ak, aðstoðarmaður forsetans í Úkraínu.

Podolíak, sem leiðir einnig friðarviðræðurnar fyrir hönd úkraínsku sendinefndarinnar, sakar rússnesk stjórnvöld um að vera blind á „einstaklega neikvætt“ hlutverk sitt í heiminum. Segir hann markmið þeirra vera „allt eða ekkert“.

Taldi hann Rússa ekki gera sér grein fyrir að stríðið væri ekki að fylgja „þeirra reglum, tímaramma þeirra eða áætlunum.“

Hermennirnir gefist upp

Varnarmálaráðuneyti Rússa segir að 265 úkraínskir hermenn í Asovstal-stálverksmiðjunni í hafnarborginni Maríupol hafi gefist upp. 51 þeirra er alvarlega særður og voru þeir hermenn fluttir á spítala í austurhluta Donetsk-héraðsins, sem er undir stjórn aðskilnaðarsinna hliðhollra Rússum, til aðhlynningar. 

Úkraínsk yfirvöld segja hermennina hafa verið flutta á svæði undir stjórn rússneskra hermanna eða aðskilnaðarsinna. Stefna stjórnvöld á að fá hermennina til baka í gegnum fangaskipti.

mbl.is