Brugga NATO-bjór í tilefni af umsókninni

Bjórinn dregur nafn sitt af frönsku skammstöfuninni fyrir Atlantshafsbandalagið, OTAN.
Bjórinn dregur nafn sitt af frönsku skammstöfuninni fyrir Atlantshafsbandalagið, OTAN. Ljósmynd/Olaf Brewing

Finnska brugghúsið Olaf Brewing tilkynnti á mánudaginn að það hefði ákveðið að brugga sérstakan bjór í tilefni af umsókn Finnlands í Atlantshafsbandalagið. 

Í sérstökum þræði á Twitter-síðu fyrirtækisins segir að það hafi ákveðið að brugga bjórinn til að minnast hinnar sögulegu ákvörðunar Finna um að sækja um aðild að bandalaginu, en brugghúsið minnist þess einnig, að margir bardagar hafi verið háðir í nágrenni Savonlinna, þorpsins þar sem það er með aðsetur.

„Vonandi verða aldrei aftur háðar orrustur í okkar fallegu borg,“ segir m.a. í þræðinum, en jafnframt að Olaf muni ávallt skála fyrir samvinnu og nýrri vináttu.  

Nafn bjórsins, OTAN, dregur nafn sitt af frönsku skammstöfuninni á Atlantshafsbandalaginu, en er einnig orðaleikur, þar sem „Otan Olutta“ á finnsku þýðir „Ég ætla að fá mér bjór!“

mbl.is