Japan loks opnað fyrir ferðamönnum á ný

Ferðamenn frá ákveðnum löndum geta farið í skipulagðar pakkaferðir til …
Ferðamenn frá ákveðnum löndum geta farið í skipulagðar pakkaferðir til Japan síðar í maí. AFP/Charly TRIBALLEAU

Stjórnvöld í Japan hafa ákveðið að opna landið fyrir ferðamönnum til reynslu í maí. Bjóða á fyrir fram skipulagðar pakkaferðir, áður en landamærin verða opnuð að fullu fyrir ferðamönnum. The Guardian greinir frá.

Þrátt fyrir að ferðamannaiðnaðurinn hafi leikið stórt hlutverk í japönsku efnahagslífi, hefur landið hefur verið lokað fyrir ferðamönnum frá því snemma árs 2020, eða nánast frá upphafi kórónuveirufaraldursins.

Aðeins hefur verið slakað á takmörkunum sem varða námsmenn og fólk sem ferðast vegna vinnu. Þessir hópar hafa fengið að koma til landsins að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Almennir ferðamenn hafa hins vegar ekki mátt koma til Japans í rúm tvö ár.

Leiðsögumenn þurfa að fylgja hópunum

Samkvæmt ferðamálastofu Japans verður ferðamönnum leyft að koma til landsins í litlum hópum síðar í maí, í nokkurs konar tilraunaverkefni til að safna upplýsingum, áður en landamærin verða alveg opnuð að nýju.

Þríbólusettir ferðamenn frá Bandaríkjunum, Ástralíu, Tælandi og Singapúr mega taka þátt í þessu tilraunaverkefni. Þó þurfa allar ferðir að vera skipulagðar í þaula af ferðaskrifstofum og leiðsögumenn þurfa að fylgja hópunum öllum stundum.

Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans, sagði fyrr í þessum mánuði að landamærin yrðu opnuð í júní, í samræmi við það sem önnur lýðræðisríki hefðu gert. Ekki hefur þó verið greint frá nákvæmri dagsetningu eða hvort landamærin verði þá opnuð að fullu.

mbl.is