Spánn greiðir fyrir leyfi vegna tíðaverkja

Irene Montero, jafnréttismálaráðherra Spánar.
Irene Montero, jafnréttismálaráðherra Spánar. AFP

Ríkisstjórn Spánar samþykkti á þriðjudag frumvarp sem veitir konum rétt á því að fá greitt leyfi þjáist þær af alvarlegum tíðaverkjum. Er þetta fyrsta slíka frumvarpið í Evrópu sem nær fram að ganga samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar.

Frumvarpið veitir starfsfólki sem upplifir sársauka vegna tíða eins mikið frí og þarf þar sem almannatryggingakerfi ríkisins tekur upp veikindaleyfið en ekki vinnuveitendur. Líkt og með launað leyfi af öðrum heilsufarsástæðum þarf læknir að skrifa upp á tímabundna óvinnufærni.

Lagatillögurnar eiga þó eftir að hljóta samþykki þingsins og ekki er búist við að frumvarpið verði borið upp til atkvæðagreiðslu í þinginu fyrr en eftir marga mánuði. Minnihlutasamsteypustjórn Pedro Sanchez hefur gert kvenréttindi að baráttumáli sínu en ekki er vitað hvort frumvarpið hafi nægan stuðning innan þingsins til að verða að lögum.

Telja frumvarpið stuðla að ráðningu karla

Tillagan hefur klofið samsteypustjórnina og jafnvel klofið verkalýðsfélög. Margir Spánverjar telja að frumvarpið geti stuðlað að því að mörg fyrirtæki ráði karla frekar en konur til starfa á sína vinnustaði og frumvarpið muni stimpla konur út af vinnumarkaðnum.

Jafnréttismálaráðherra Spánar, Irene Montero, segir að lögin muni viðurkenna tíðir sem heilsufarsvandamál en þeim hafi að mestu verið sópað undir teppið fram að þessu. „Túr verður ekki lengur bannorð,“ sagði hún á blaðamannafundi eftir að ríkisstjórnin samþykkti frumvarpið.

Eins og er er aðeins boðið upp á tíðaleyfi í fáeinum löndum í heiminum, svo sem í Suður-Kóreu og Indónesíu, en hvergi í Evrópu. „Við verðum fyrsta landið í Evrópu til að taka upp tímabundið veikindaleyfi sem er að fullu fjármagnað af ríkinu fyrir sársaukafull og óvinnufær tímabil,“ bætti hún við.

Hluti af stærra samhengi

Spænska löggjöfin er hluti af mun víðtækari umbótum á frjósemisheilbrigði og mun fela í sér breytingar á fóstureyðingalögum landsins. Það mun binda enda á kröfuna um að börn á aldrinum 16 og 17 ára fái samþykki foreldra áður en þungun er slitin og felur í sér ráðstafanir til að auka aðgengi að fóstureyðingum á einkasjúkrahúsum.

Spánverjar afglæpavæddu fóstureyðingar árið 1985 í tilfellum þegar um kynferðisbrot var að ræða  eða ef heilsu barns eða móður var ógnað.  Árið 2010 var gildissvið laganna víkkað og náði þá einnig til þess að leyfa fóstureyðingar samkvæmt beiðni á fyrstu 14 vikum meðgöngu.

mbl.is