Þingmaður í haldi lögreglu

Breska þinghúsið.
Breska þinghúsið. AFP

Þingmaður breska Íhaldsflokksins er nú í haldi lögreglunnar í Lundúnum, en hann var handtekinn í dag grunaður um fjölmörg kynferðisbrot, þar á meðal nauðgun.

Í tilkynningu lögreglunnar sagði að hún hefði handtekið mann á sextugsaldri vegna ásakana um velsæmisbrot, kynferðisbrot, nauðgun og önnur brot, sem áttu sér stað fyrir meira en áratug síðan. 

Sagði þar að lögreglan hefði fengið ábendingu um brotin í janúar árið 2020, og að þau hefðu verið framin á árunum 2002-2009. Eiga brotin að hafa átt sér stað í Lundúnum. Mun rannsókn málsins vera í fullum gangi.

Talskona Íhaldsflokksins sagði að flokkurinn hefði skipað þingmanninum að koma ekki til Westminster-hallar, breska þinghússins, eða skrifstofubygginga nálægt henni meðan rannsókn málsins stæði yfir. Ekki verður ákveðið hvort viðkomandi þingmanni verði vikið úr flokknum fyrr en rannsókn lögreglu er lokið. 

Málið kemur í kjölfar nokkurra hneykslismála sem skekið hafa bresk stjórnmál og Íhaldsflokkinn, en í síðasta mánuði var ljóstrað upp um að 56 þingmenn sætu nú rannsókn siðanefndar þingsins vegna ásakana um kynferðislega áreitni.

Þá þurfti Neil Parish að segja af sér í síðasta mánuði eftir að það kom í ljós að hann hafði horft á klámefni í þingsal neðri deildar þingsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert