Bandaríkin lofa að vernda Svía og Finna

Forseti Bandaríkjanna lýsti yfir stuðningi við umsóknina á blaðamannafundi í …
Forseti Bandaríkjanna lýsti yfir stuðningi við umsóknina á blaðamannafundi í dag. AFP

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur lýst yfir eindregnum stuðningi við aðildarumsóknir Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu.

Bandaríkin muni veita Finnum og Svíum vernd á meðan umsóknarferlið á sér stað, til þess að brúa bilið þar til þau umsóknir þeirra hafa verið samþykktar og ríkin þannig varin af sáttmála NATO.

Formlegt umsóknarferli þeirra hófst í dag.

Varin af BNA, Norðurlöndunum og Bretlandi

Noregur, Danmörk og Ísland sendu frá sér sambærilega yfirlýsingu í fyrradag og Bretland hafði gert sérstakt bandalag við ríkin. Þannig er staða Svíþjóðar og Finnlands nú þegar orðin slík að þau njóta verndar sterkra sambandsríkja, komi til þess að ráðist verði inn í þau. 

Heimsækja Biden á morgun

Sauli Niinistö, forseti Finnlands og Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, verða gestir Biden í Hvíta húsinu á morgun. Biden kveðst hlakka til að geta boðið Svíþjóð og Finnland velkomin í NATO. 

Forseti Tyrklands, hefur ekki enn fallið frá þeirri yfirlýsingu sinni að Tyrkland muni ekki samþykkja umsóknirnar, en ljóst er að samþykki allra 30 aðildarríkja NATO þarf til þess að ný ríki geti bæst við sambandið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert