Brotlending vélarinnar líklega viljaverk

Mynd tekin 27. mars síðastliðinn af björgunarfólki sem stóð saman …
Mynd tekin 27. mars síðastliðinn af björgunarfólki sem stóð saman í þögn af virðingu fyrir hinum föllnu. AFP

Fluggögn benda til þess að brotlending flugvélar félagsins China Eastern í marsmánuði hafi verið viljaverk. Þetta herma heimildir Wall Street Journal.

Til þessa hafa engir tæknilegir eða vélrænir gallar sem gætu hafa valdið slysinu fundist, samkvæmt frumniðurstöðum rannsóknar á slysinu. 

Vélin, sem var af gerðinni Boeing 737-800, var á leið frá kínversku borginni Kunming til kínversku borgarinnar Guangzhou, þegar hún brotlenti. 132 voru um borð í vélinni og komst enginn þeirra lífs af.

Flugmennirnir ekki í fjárhagsvandræðum

Vélin gerði það sem henni var sagt af einhverjum í stjórnklefanum, að sögn viðmælanda Wall Street Journal, sem þekkir bráðabirgðamat bandarískra starfsmanna á flugslysinu. 

Gögn úr einum flugrita vélarinnar benda til þess að skipanir, sem gefnar voru stjórntækjum vélarinnar, hafi orðið til þess að vélin tók nánast lóðrétta dýfu. 

China Eastern hafði áður sagt að flugmennirnir þrír sem voru um borð hafi verið hæfir og við góða heilsu. Þá bætti flugfélagið því við í svari við fyrirspurn Wall Street Journal að ekkert benti til þess að þeir hefðu átt í fjárhagsvandræðum. 

Í síðasta mánuði sagði flugmálastjórn Kína að fréttir af því að vélinni hefði mögulega verið brotlent af ásetningi hefðu „afvegaleitt almenning alvarlega“ og „truflað rannsóknarvinnu.“

mbl.is