Eyddi skilaboðum til að spara pláss

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands.
Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands. AFP

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, kveðst svo árum skipti hafa eytt skilaboðum úr farsíma sínum til að spara pláss. Hann segist þó hafa geymt mikilvæg skilaboð.

Forsætisráðherrann, sem er þekktur í heimalandinu fyrir að hafa lengi notað gamlan Nokia síma, greindi frá þessu í samtali við hollenska fjölmiðla þegar hann var spurður um samskipti stjórnvalda í kórónuveirufaraldrinum.

Í umfjöllun hollenska fjölmiðla kemur fram að Rutte hafi sjálfur ákveðið hvaða skilaboðum yrði eytt og hver yrðu áframsend þar sem hægt væri að geyma þau.

„Ég fór eftir leiðbeiningum,“ sagði Rutte í samtali við blaðamenn.

Rutte sagði enn fremur að hann hefði aldrei reynt að leyna upplýsingum með því að velja hvaða skilaboðum ætti að eyða.

Rutte með snjallsíma.
Rutte með snjallsíma. AFP

Forsætisráðherrann sagðist ekki hrifinn af snjallsímum vegna þess að erfitt væri að skrifa skilaboð á þá. Af þeim sökum hefði hann lengi haldið sig við gamla, góða takkasímann.

Dagblaðið De Volkskrant fór fram á aðgang að skilaboðum forsætisráðherrans frá árinu 2020. Forsvarsmenn þess voru undrandi þegar þeir fengu eingöngu aðgang að skilaboðum sem Rutte hafði áframsent á samstarfsfólk sitt og vildu frekari upplýsingar.

Lögmaður hollenska ríkisins sagði að Rutte geymdi það sem skipti máli og að ekkert saknæmt hefði átt sér stað.

Blaðafulltrúi Rutte greindi frá því nýlega að ráðherrann hefði fengið sér snjallsíma vegna þessa að gamli síminn virkaði illa í heimsókn til Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert