„Fólk er farið að snúa aftur heim“

Til að geta komið til baka þarf fyrst að fara …
Til að geta komið til baka þarf fyrst að fara í burtu. Ljósmynd/Karíne

Íbúar Karkív eru farnir að streyma aftur til borgarinnar eftir að hafa yfirgefið hana þegar innrás Rússa hófst. Eftir því sem her Úkraínumanna hefur gengið betur að ýta Rússum lengra og lengra frá borginni, hefur straumur heimamanna til baka aukist. Ennþá heyrast þó sprengjuhvellir við og við, en þeir eru mun færri og lengra í burtu en áður. Reglulega heyrist þó enn í flugskeytaárásum Rússa á Lvív, en loftvarnarkerfi borgarinnar hefur undanfarið haft betur gegn sprengjum Rússa.

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Ser­gei í Lvív í vest­ur­hluta Úkraínu og Kar­íne í borg­inni Karkív í aust­ur­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is upp­lif­un­um sín­um og greina frá því sem er efst er í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð braust út í landi þeirra.

Þriðjudagur 17. maí

Karíne í Karkív

Við höfum bæði áhyggjur af og erum spennt fyrir samkomulaginu sem Selenskí gerði í tengslum við uppgjöf varnarliða okkar í Maríupol. Þeir þurftu að gefast upp til að halda lífi og voru fluttir af Rússum frá Asovstal-stálverksmiðjunni. Reyndar virðist vera að hinir slösuðu hafi verið fluttir í burt af Rauða krossinum.

Úkraínsk hernaðaryfirvöld hafa staðfest að 264 hafi verið fluttir á hið svokallaða DNR svæði sem Rússar kalla Alþýðulýðveldið Donetsk [innsk. Samkvæmt nýrri tölum hafa 959 hermenn gefist upp og verið færðir frá verksmiðjunni]. Þetta er svæðið sem Rússar hertóku árið 2014. Vonandi munu yfirvöld semja við Rússa um fangaskipti. Það er hins vegar ekkert traust gagnvart Rússum og nú vonum við bara að þeir muni ekki pynda hermennina.

Fólk er farið að snúa aftur heim til Karkív. Síðustu daga hafa verið raðir af bílum, þar sem íbúar eru að snúa aftur. Eiginmaður minn sagði mér ótrúlega sögu í dag af einni fjölskyldu sem er nýlega komin aftur. Fjölskyldan bjó í Oleksívivka þar sem mikið hafði verið um sprengjuregn. Fjölskyldan flúði til Bohodukív, sem er hér nálægt Karkív og var þar lengst af eftir að innrásin hófst. Þau ákváðu svo að færa sig nýlega yfir til Karkív og sama dag var húsið sem þau höfðu búið í í Bohodukív sprengt. Ákvörðunin um að koma til Karkív bjargaði því lífi þeirra. Það er annars orðið miklu minna um sprengjuhvelli og hávaða núna síðustu daga en vikurnar þar á undan.

Einn af þeim sem hefur snúið aftur til Karkív er listamaðurinn Gamlet Sinkivskí. Hann hefur víða sett upp verk í almannarýmum en jafnan eru verk hans teikningar með heimspekilegum tilvísunum. Ég tók myndir af nokkrum verkum hans á morgungöngu minni í vikunni.

Allir þurfa að burðast með eigin byrði.
Allir þurfa að burðast með eigin byrði. Ljósmynd/Karíne

Á mánudaginn heimsóttum við eiginmaður minn gamlan bekkjarfélaga minn, hann Ígor, og eiginkonu hans, Líubov. Þetta er fyrsta alvöru heimsóknin sem við höfum farið í síðan innrásin hófst. Við náðum að setjast niður í garðinum þeirra og áttum góðar samræður. Sex heimili í nágrenni við þau eyðilögðust í árásum Rússa en hús þeirra slapp. Móðir Ígors slasaðist hins vegar í einni sprengjuárásinni og er nú á spítala.

Á mánudagskvöldið fór ég út að ganga með hundinn okkar í nálægum garði. Ein kona nálgaðist mig og spurði hvort hún mætt klappa hundinum, því hún saknaði eigin hunds sem hún þurfti að skilja eftir þegar hún flúði til Karkív. Sonur hennar er á herspítala hér í borginni eftir að hafa særst alvarlega nærri Kænugarði. Móðirin biður fyrir honum á hverjum degi og heimsækir hann á spítalann.

Karíne reynir að fara daglega út með hundinn að ganga.
Karíne reynir að fara daglega út með hundinn að ganga. Ljósmynd/Karíne

Mig langar aftur að þakka Íslendingum fyrir stuðninginn í Euorvision. Við erum mjög ánægð með sigurinn en enn ánægðari með gríðarlegan stuðning sem Úkraína fékk frá öðrum keppendum og fólki heima fyrir. Það voru ótrúlegar tilfinningar sem bærðust innra með okkur meðan keppnin fór fram og við fundum næstum því líkamlega fyrir þessum mikla stuðningi. Við þökkum líka Systrum fyrir stuðninginn en það tóku allir hér í Úkraínu eftir merkjunum sem þær báru. Það var líka frábært að sjá alla fagna með úkraínsku keppendunum.

Við vissum að það yrði einhver blanda af tilfinningum þetta kvöld og það var erfitt að halda aftur af tárunum. Við búum við stanslausa spennu í daglegu lífi og við þurftum svo sannarlega á einhverju eins og Eurovision að halda á þessum tímum. Keppni sem dregur fram jákvæðar tilfinningar og ást.

Það er orðið blómlegt í Karkív.
Það er orðið blómlegt í Karkív. Ljósmynd/Karíne

Sergei í Lvív

Áttugasti og þriðji dagur stríðsins. Í nótt voru öll flugskeyti frá Rússum sprengd af loftvarnarkerfum borgarinnar. Það fóru því milljónir dala í súginn hjá Rússum í nótt. Ímyndið ykkur hversu miklu af búnaði og fjármunum þeir tapa á hverjum einasta degi við víglínuna.

Ég var á skrifstofunni stærstan hluta dagsins. Um kvöldið fór ég í vinsæla fatabúð og síðar í matvörubúð. Maður er farinn að taka eftir því að verð á matvöru fer hækkandi nokkuð ört. Ég tel að við munum finna fyrir áhrifum stríðsins til nokkuð langs tíma, jafnvel eftir að því lýkur.

Í gær las ég að vinur minn, sem lést við víglínuna, verður einn þeirra sem fær orðu frá forseta Úkraínu. Það hefði samt verið betra að hafa hann á lífi en eins og ég hef sagt áður verður erfitt fyrir mig að sætta mig við að hann er farinn. Lífið heldur samt áfram og fórn hans var ekki til einskis.

Það er komið sumar í Lvív, en í vikunni heimsótti …
Það er komið sumar í Lvív, en í vikunni heimsótti Sergei foreldra sína og þar var garðurinn farinn að taka vel við sér eftir vorið.

Veðrið hefur verið fínt í vikunni og ég þarf að nýta það betur til að fara út í göngutúra. Í fyrradag spjallaði ég lengi við konuna mína í síma. Hún og sonur okkar eru í góðu yfirlæti í Póllandi og nóg að gera á hverjum degi. Þegar ég var kominn upp í rúm það kvöld og alveg að sofna, glumdu loftvarnarflauturnar og draumurinn sem var að verða til, hvarf um leið. Eftir um 10 mínútur af sprengingum varð aftur hljótt. Samkvæmt fréttum tókst að skjóta þessar eldflaugar niður. Ég giska samt á að þetta muni halda áfram. Helvískir...

mbl.is