Rosaleg aðkoma – allt sprengt í tætlur

Petrov með sprengjubrotið þar sem áður var gluggi.
Petrov með sprengjubrotið þar sem áður var gluggi. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Ljósmyndarinn Óskar Hallgrímsson, sem er búsettur í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, segir aðkomuna í hverfið Saltivka, nyrst í borginni Karkív, hafa verið erfiða þegar hann fór þangað í myndaleiðangur.

„Þetta er versti staðurinn í Karkív. Hann er búinn að verða fyrir langmestum skemmdum. Þarna er búið að sprengja allt í tætlur,“ segir Óskar í samtali við mbl.is. „Það var rosaleg aðkoman þarna og ekkert hús sem var heilt.“

Íbúðablokkin er illa farin.
Íbúðablokkin er illa farin. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Fyrir utan stóra íbúðablokk, sem er ein margra sem fóru illa út úr sprengjuárás Rússa á borgina, hitti hann fyrir hjónin Petrov og Ala. Þau fóru með Óskar inn í blokkina til að sýna honum íbúðina sína en fyrst þurftu þau að klifra yfir miklar rústir vegna þess að inngangurinn að blokkinni hafði verið sprengdur upp. 

Ala inni í íbúðinni.
Ala inni í íbúðinni. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

„Þegar ég fór í Bútsja og á önnur svæði var mikil eyðilegging en þarna sést hvað þrír mánuðir af stanslausri árás þýðir,“ segir Óskar. Nánast allt hafi verið sprengt upp og varla heila rúðu að sjá.

Átta manns sváfu í litlu rými í kjallaranum.
Átta manns sváfu í litlu rými í kjallaranum. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Hjónin sýndu honum íbúðina sína og tók Petrov upp eitt af mörgum sprengjubrotum sem er að finna í blokkinni og á nálægum svæðum.

Á meðan sprengjuregnið dundi á borginni höfðust þau hjónin við í um þrjá mánuði í byrgi í kjallara blokkarinnar ásamt fleiri íbúum. Meðal annars gistu átta saman í litlu svefnrými. Hvorki rafmagn né vatn var þar að finna og notuðust menn í staðinn við opinn eld á prikum.

Aðstæðurnar í kjallaranum voru fábrotnar.
Aðstæðurnar í kjallaranum voru fábrotnar. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson


Óskar ferðaðist einnig skammt frá svæðinu þar sem úkraínskir hermenn hafa notað fallbyssur af tegundinni M-777 sem þeir fengu sendar frá Vesturlöndum í bardögunum gegn Rússum og segist hann hafa heyrt mjög vel í þessum kraftmiklu byssum. „Það eru bara nokkrir dagar síðan það hætti að rigna yfir þetta svæði,“ segir hann og á við sprengjur Rússa. 

mbl.is