22 ára dæmd fyrir að ganga til liðs við Ríki íslams

Leonora mynduð árið 2019, þá 19 ára gömul.
Leonora mynduð árið 2019, þá 19 ára gömul. AFP

Þýsk kona sem gekk til liðs við Ríki íslams í Sýrlandi 15 ára gömul var dæmd í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi í gær en var sýknuð af ásökunum um að hafa tekið þátt í glæpum gegn mannkyninu. 

Konan heitir Leonora Messing en hún er nú orðin 22 ára gömul. Hún var fundin sek um að hafa gengið til liðs við hryðjuverkasamtök. 

Saksóknarar höfðu sakað Messing og eiginmann hennar um að hafa keypt og hneppt jasída-konu í þrældóm árið 2015. 

Dómararnir í málinu töldu þó að ekki væri hægt að sanna það. 

Dóttir bakara sem ólst upp í smábæ

Messing var alin upp í þýskum smábæ en hljópst árið 2015 að heiman og til borgarinnar Raqa sem er í þeim hluta Sýrlands sem er undir stjórn Ríkis íslams. Eftir að hún náði þangað gekk Messing í hjónaband með þýskum ríkisborgara og þekktum jíhadista. Hann átti tvær eiginkonur fyrir svo Messing varð þriðja eiginkona hans.

Faðir Messing, bakari frá þýska þorpinu Breitenbach, komst einungis að því að dóttir hans hefði gengið til liðs við Ríki íslams með því að opna tölvu dóttur sinnar og lesa dagbók hennar.

Sex dögum eftir að hún hvarf fékk faðir hennar skilaboð þar sem honum var tilkynnt að dóttir hans hefði „valið Allah og Íslam“ og að hún væri „komin til kalífadæmis“.

Býr nú í grennd við uppvaxtarstaðinn

Messing ól tvær stúlkur á meðan hún dvaldi í Sýrlandi. Eiginmaður hennar var tekinn til fanga árið 2019 af sýrlenskum lýðræðissveitum sem studdar eru af Bandaríkjunum. 

Í desembermánuði árið 2020 var Messing flutt heim til Þýskalands ásamt 54 öðrum, mest börnum. Hún var handtekin við komu á flugvöllinn í Frankfurt en síðar sleppt. Hún býr nú í grennd við þorpið sem hún ólst upp í í Þýskalandi með dætrum sínum.

mbl.is