Heyrði skotin sem urðu eiginmanni hennar að bana

Hermaðurinn sem drap eiginmann Shelipovu.
Hermaðurinn sem drap eiginmann Shelipovu. AFP

Ekkja 62 ára gamals úkraínsks manns sem drepinn var í byrjun stríðsins ávarpaði rússneska hermanninn sem drap manninn hennar í réttarhöldum yfir hermanninum í dag.

Ekkjan, Kateryna Shelipova, spurði hermanninn, Vadim Shishimarin, hvernig honum hafi liðið þegar hann drap eiginmann hennar. 

Shishimarin svaraði því til að hann hefði ekki viljað hleypa af byssunni en að honum hafi verið ógnað af öðrum hermanni. Hann játaði glæpinn í gær.

„Segðu mér vinsamlegast, hvers vegna komuð þið [Rússar] hingað? Til þess að vernda okkur?“ spurði Shelipova og vísað til réttlætingar Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta á innrásinni í Úkraínu. 

„Vernda okkur frá hverjum? Verndaðir þú mig frá eiginmanni mínum sem þú drapst?“

Hermaðurinn gat ekki svarað þessum spurningum Shelipovu. 

Kateryna Shelipova sést hér lengst til hægri.
Kateryna Shelipova sést hér lengst til hægri. AFP

Fann lík mannsins síns

Í gær sagði hún blaðamanni BBC að hún kenndi í brjósti um hermanninn unga en að hún gæti ekki fyrirgefið honum. Hún heyrði skotin sem urðu manni hennar að bana og sá svo Shishimarin í gegnum hlið. Hann hélt á byssu. 

Stuttu síðar fann hún lík eiginmanns síns á götunni. „Hann verndaði mig,“ sagði Shelipova um eiginmann sinn. 

mbl.is