„Þetta hefur aldrei verið eins slæmt“

Milljónir hafa flúið stríðsátökin í Úkraínu á þessu ári.
Milljónir hafa flúið stríðsátökin í Úkraínu á þessu ári. AFP

Tæplega 60 milljónir jarðarbúa voru á flótta á síðasta ári, annað hvort vegna stríðsátaka eða náttúruhamfara. Aldrei fleiri hafa verið á flótta í heiminum. 

Þetta kemur fram í skýrslu alþjóðlegra stofnana sem taka saman tölfræði um fólk á flótta. Í umfjöllun Internal Displacement Monitoring Centre (IDMC), sem vaktar þá sem lenda á vergang, og Norska flóttamannaráðsins (NRC) voru samtals skráðir 59,1 milljón jarðarbúa á flótta. Talan hefur aldrei verið hærri, sem fyrr segir, en fastlega er búist við því að metið verið slegið fyrir þetta ár. Ekki síst vegna átakanna sem geisa í Úkraínu. 

Alls voru 38 milljónir skráðar á flótta í fyrsta sinn í fyrra. En hluti hópsins hefur neyðst til að flýja margsinnis á árinu. 

Fimm milljónir voru á flótta í Eþíópíu þar sem stríðsátök …
Fimm milljónir voru á flótta í Eþíópíu þar sem stríðsátök og miklir þurrkar hafa valdið miklum erfiðleikum og þjáningu. AFP

Þetta er næst hæsta skráning yfir nýtt fólk á flótta á eftir 2020 þegar fleiri voru á vergangi sem rekja mátti til fjölmargra náttúruhamfara víða um heim. 

Í fyrra voru 14,4 milljónir skráðar á flótta vegna stríðsátaka í fyrsta sinn og er það 50% aukning miðað við árið 2020 og tvöföldun sé litið aftur til ársins 2012. 

„Árið 2022 lítur ekki vel út, “ sagði Alexandra Bilak, framkvæmdastjóri IDMC, á blaðamannafundi. 

Hún sagði að þessar háu tölur fyrir síðasta ár væru sorgleg áminning um ástandið í heiminum og þá sérstaklega varðandi friðarumleitanir.

Milljónir hafa flúið stríðsátökin í Úkraínu á þessu ári.
Milljónir hafa flúið stríðsátökin í Úkraínu á þessu ári. AFP

Jan Egeland, framkvæmdastjóri NRC, tók í sama streng. „Þetta hefur aldrei verið eins slæmt,“ sagði hann og bætti við: „Heimurinn er að liðast í sundur.“

Egeland segir að staðan í dag sé margfalt verri en núverandi tölur, sem slái fyrri met, gefi til kynna.

Flestir voru á flótta í eigin heimalandi í Afríkuríkjum fyrir sunnan Sahara. Í Eþíópíu voru t.d. 5 milljónir á flótta en þar hafa geisað stríðsátök auk þess sem miklir þurrkar hafa valdið miklum hamförum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert