„Við höldum óþekkum konum heima“

Sirajuddin Haqqani fór einungis að sýna andlit sitt opinberlega fyrir …
Sirajuddin Haqqani fór einungis að sýna andlit sitt opinberlega fyrir nokkrum mánuðum síðan. AFP

Sirajuddin Haqqani, sitjandi innanríkisráðherra Afganistans og einn af leiðtogum Talíbana, ítrekaði óuppfyllt loforð samtakanna um að konum verði hleypt aftur í framhaldsskóla í einkaviðtali við CNN. Sagði Haqqani að „góðra frétta“ væri að vænta en aftur á móti ættu konur sem mótmæltu takmörkunum stjórnvalda í Afganistan að halda sig heima. 

Eftir að talíbanar höfðu lofað því ítrekað að stúlkur myndu fá að mæta í framhaldsskóla frestuðu þeir þeirri breytingu ótímabundið í marsmánuði. 

Þegar fréttakona CNN spurði Haqqani um þá stöðu að afganskar konur væru hræddar við að yfirgefa heimili sín undir stjórn talíbana og væru smeykar við þær breytingar sem talíbanar boðuðu á réttindum kvenna sagði Haqqani hlæjandi:

„Við höldum óþekkum konum heima.“

Ráðherrann eftirlýstur af FBI

Fréttakona CNN bað Haqqani um að skýra þessi ummæli betur sagði hann: 

„Með því að segja óþekkar konur var ég að grínast og vísa til þeirra óþekku kvenna sem er skipað af öðrum að draga núverandi stjórnvöld í efa.“

Þá setti Haqqani einnig fram nokkur mörk á líf kvenna sem hann sagði að væru í samræmi við túlkun talíbana á íslömskum lögum og „þjóðlegum, menningarlegum og hefðbundnum meginreglum.“

„Þeim er leyfilegt að vinna innan sinna eigin ramma,“ sagði Haqqani. 

Var viðtal CNN við hann fyrsta sjónvarpsviðtalið sem hann hafði farið í við vestrænan fjölmiðil í áraraðir. Einungis fyrir nokkrum mánuðum síðan sýndi hann andlit sitt í fyrsta sinn opinberlega. Haqqani er eftirlýstur af bandarísku alríkislögreglunni (FBI).

Talíbanar rændu völdum í Afganistan í ágústmánuði í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert