„Gert til að pota í augað á Rússum“

Fjölmargir gerðu sér ferð að torginu til þess að skoða …
Fjölmargir gerðu sér ferð að torginu til þess að skoða rústirnar. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Á einu sögufrægasta torgi Úkraínu hefur brunarústum rússneskra hergagna verið stillt upp til sýnis.

Úkraínskir hermenn fluttu rústirnar þangað í morgun. Torgið sem um ræðir er beint fyrir framan gullhúðaða klaustrið sem kennt er við sankti Mikael.  

„Í fyrstu áróðursræðunum sem Pútín hélt til að réttlæta innrásina, talaði hann einmitt um að það væri skömm að þetta torg væri í Úkraínu, enda væri það arfleifð Rússa. Þannig held ég að þetta sé svolítið gert til að pota í augað á Rússum,“ segir Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari og íbúi í Kænugarði. 

„Við erum orðin svo vön því að það sé stríð …
„Við erum orðin svo vön því að það sé stríð í gangi.“ Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Líkamsleifar rússneskra hermanna

Óskar hefur sjálfur ferðast á stríðssvæðin fyrir utan Kænugarð og tekið þar ljósmyndir, hann hefur því séð fleiri hundruð hergagna. Þær rústir sem voru valdar til uppstillingar á torginu eru að hans mati þverskurðurinn af því sem sjá má á stríðssvæðunum. 

Þarna er nokkuð heill skriðdreki, brimvarið fólksflutningstæki, toppur á skriðdreka sem hefur verið sprengdur af og brenndir einkennisbúningar rússneskra hermanna, svo eitthvað sé nefnt. 

„Á stríðssvæðunum þá eru líkamsleifar Rússa ennþá í tækjunum, það sama á líklega við um þessi tæki.“

Óskar bendir á að það sé táknrænt að velja umrætt …
Óskar bendir á að það sé táknrænt að velja umrætt torg, enda hafi Pútín talað um það sem menningararfleifð Rússa í aðdraganda innrásarinnar. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Ný birtingarmynd fyrir íbúa Kænugarðs

Óskar bendir á að úkraínski herinn hafi ekki þurft að leita langt til að finna rústirnar sem settar voru á torgið.

Úthverfin séu enn full af svona rústum og þá hafi einnig myndast haugar skammt frá Kænugarði þar sem rústum hefur verið staflað upp, þegar þær hafa verið hreinsaðar af götunum. 

Stríðið hefur ekki náð inn í Kænugarð til þessa og því hafa íbúar þar margir hverjir ekki enn litið hergögn Rússa berum augum. 

„Konan mín var til að mynda að sjá þetta í fyrsta skipti, henni þótti áhugavert að sjá þetta. við erum orðin svo vön því að það sé stríð í gangi, en þetta er kannski í fyrsta skipti sem fólk sér þessi tæki svona sundurbrennd og sprengd í tætlur.“

Líkamsleifar rússneskra hermanna eru enn í tækjunum á stríðssvæðunum og …
Líkamsleifar rússneskra hermanna eru enn í tækjunum á stríðssvæðunum og Óskari þykir ekki ósennilegt að hið sama gildi um þessar rústir. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

„Fólk var bara frekar peppað“

Þó það kunni að fara óhugur um einhverja, er tilfinning Óskars sú að flestir íbúar hafi verið nokkuð ánægðir með þetta framtak hersins. 

„Hatrið og reiðin gagnvart Rússum er bara orðin svo mikil að fólk var bara frekar peppað yfir þessu.“

Kænugarður er nánast orðinn starfhæfur aftur, að sögn Óskars, enda hafi fjöldi fólks snúið til baka. Þá hefur einnig dregið úr eftirliti hermanna, þó þeir séu sýnilegir um alla borgina. 

mbl.is