Ekki eigi að vanmeta getu kínversku þjóðarinnar

Joe Biden Bandaríkjaforseti segir að ef Kínverjar ráðast inn í …
Joe Biden Bandaríkjaforseti segir að ef Kínverjar ráðast inn í Taívan verði þeir að greiða fyrir innrásina. AFP/Sam Yeh

Yfirvöld í Peking, höfuðborg Kína, voru lítt ánægð með ummæli Joe Bidens Bandaríkjaforseta um að Bandaríkin myndu hjálpa taívanska hernum að verjast ef Kínverjar réðust á eyjuna. Að sögn talsmann kínverska utanríkisráðuneytisins eru Kínverjar reiðubúnir að verja þjóðarhagsmuni sína gagnvart Taívan.

Biden lét ummælin falla í morgun þegar hann var að ræða refsiaðgerðir gegn Rússlandi vegna stríðsins í Úkraínu. Sagði hann Rússa þurfa að borga fyrir það í langan tíma. Tók hann m.a. fram að ekki væri skynsamlegt fyrir Vesturlönd að draga úr refsiaðgerðum gegn Rússum því kínversk stjórnvöld væru að fylgjast með. 

„Hvaða skila­boð myndi það senda Kína um kostnaðinn við að gera til­raun til að her­taka Taív­an?“ spurði Biden þá. 

Ummælin féllu ekki í kramið hjá yfirvöldum í Peking en talsmaður utanríkisráðuneytisins sagði að enginn ætti að vanmeta vilja og getu kínversku þjóðarinnar til að verja fullveldi þjóðarinnar og landhelgi. 

mbl.is