Forsetafrú Úkraínu biður um aðstoð

Olena Selenska (til hægri) ásamt forsetafrú Bandaríkjanna, Jill Biden, á …
Olena Selenska (til hægri) ásamt forsetafrú Bandaríkjanna, Jill Biden, á mæðradaginn. AFP

Forsetafrú Úkraínu hvetur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, WHO, til að aðstoða þjóðina við að takast á við mikinn geðheilbrigðisvanda. Hún varar við því að áhrifin af innrás Rússa gætu varað næstu áratugi.

„Vegna þess sem Úkraínumenn hafa þurft að þola vegna innrásarinnar, í fremstu víglínu, í sprengjubyrgjum, undir stórskotahríð...Þeir þurfa endurhæfingu rétt eins og þeir sem særast líkamlega,“ sagði Olena Selenska á árlegu þingi WHO.

„Afleiðingar stríðsins munu því miður vara næstu árin og áratugina,“ bætti hún við.

Selenska flutti ræðuna á svipuðum tíma og eiginmaður hennar, forsetinn Volodimír Selenskí, óskaði eftir auknum refsiaðgerðum í garð Rússa á leiðtogafundi í Davos í Sviss.

Selenska sagði Úkraínumenn, með hjálp WHO, vera tilbúna til að „berjast fyrir andlegri heilsu almennings“.

Hún bætti við: „Stríð Rússa hefur haft í för með sér hrylling sem enginn hefði getað ímyndað sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert