Fundu 14 lík á ströndinni

Strönd. Myndin tengist fréttinni ekki.
Strönd. Myndin tengist fréttinni ekki. AFP

Fjórtán lík fundust á strönd í Mjanmar í dag samkvæmt upplýsingum frá lögreglu þar í landi. Heimildir fréttastofu AFO herma að hluti þeirra sem fórust hafi verið Róhingjar á flótta til Malasíu. 

Róhingjar, sem eru flestir múslímar, hafa þurft að sæta ofsóknum í Mjanmar, þar sem búddistar eru í meirihluta, frá árinu 2017. Því hefur talsverður fjöldi fólks lagt á flótta frá landinu.

Flóttamennirnir voru á ferð með bát frá vesturhluta Mjanmar til Malasíu. Í heildina fundust 49 manns, þar af fjórtán látnir en hinum 35 var bjargað lifandi. Meðlimur hjálparsamtaka í Mjanmar sagði undir nafnleynd að þau hefðu þar að auki fundið átta lík í gær. Þar tilheyrðu allir þeir látnu minnihlutahóp Róhingja.

Mörg hundruð þúsund Róhingjar hafa nú flúið Mjanmar og eru um 850 þúsund þeirra staðsettir í flóttamannabúðum í nágrannalandinu Bangladess.

mbl.is