Hefðu getað bjargað tugþúsundum lífa

Selenskí ávarpaði leiðtogafundinn í Davos í gegnum fjarfundarbúnað.
Selenskí ávarpaði leiðtogafundinn í Davos í gegnum fjarfundarbúnað. AFP

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, notaði leiðtogafundinn í Davos í Sviss dag til þess að biðja um meira magn vopna og „allra mestu“ refsiaðgerðir gegn Rússlandi. Hann sagði að mögulegt hefði verið að bjarga tugþúsundum mannslífa ef ríki hefðu brugðist hraðar við. 

Á fundinum sagði Selenskí að átökin í Úkraínu sýndu að því fyrr sem stuðningur væri veittur því verðmætari væri hann. Selenskí nefndi vopn, fjármagn, pólitískan stuðning og refsiaðgerðir í því samhengi. 

„Ef við hefðum fengið fullan stuðning miðað við þarfir okkar í febrúar hefði það leitt til þess að tugþúsundum mannslífa hefði verið hlíft,“ sagði Selenskí.

„Þetta er ástæðan fyrir því að Úkraína þarf á öllum vopnum sem við biðjum um að halda, ekki bara þeim sem okkur hafa þegar verið gefin,“ sagði Selenskí. 

„Svívirðilegt“

Úkraína er í mestri þörf fyrir skriðdreka og loftvarnarkerfi að sögn þingkonunnar Anastasiu Radinu. 

„Það eru þrír mánuðir liðnir af stríðinu, tugir þúsunda hafa fallið og við erum enn að ræða það hvort við þurfum herþotur. Í raun og veru er þetta svívirðilegt,“ sagði Radina í samtali við AFP.

Selenskí kallaði eftir olíubanni gegn Rússlandi, refsiaðgerðum gegn öllum bönkum landsins og því að upplýsingatæknigeiri landsins yrði sniðgenginn. Þá biðlaði hann einnig til allra erlendra fyrirtækja um að yfirgefa Rússland.

„Engin viðskipti við Rússland ættu að eiga sér stað,“ sagði Selenskí. „Ég tel að það séu enn engar slíkar refsiaðgerðir í gildi gegn Rússlandi en þær ættu að vera það.“

Þó að Bandaríkin, Bretland og Kanada hafi bannað rússneska olíu og gas þá hefur þjóðum Evrópusambandsins ekki tekist að komast að samkomulagi um slíkt. Þýskaland og Ungverjaland, sem bæði eru í Evrópusambandinu, reiða sig að miklu leyti á orkubirgðir frá Rússlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert