Lítil hætta á mikilli útbreiðslu meðal almennings

Einkenni apabólu eru hiti, vöðvaverkir, bólgnir eitlar, kuldahrollur, þreyta og …
Einkenni apabólu eru hiti, vöðvaverkir, bólgnir eitlar, kuldahrollur, þreyta og útbrot á höndum og andliti. AFP/Brian W.J. Mahy/Centers for Disease Control and Prevention

Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) segir að lítil hætta sé á að sjúkdómurinn apabóla breiðist út meðal almennings, þótt útbreiðslan sé umtalsverð innan ákveðinna hópa.

„Flestir þeirra sem nú eru með sjúkdóminn hafa fengið væg sjúkdómseinkenni og litlar líkur eru á því að sjúkdómurinn breiðist út meðal almennings,“ sagði Andrea Ammon, forstöðumaður Sóttvarnastofnunar Evrópu.

„Aftur á móti eru líkurnar á frekari útbreiðslu veirunnar í gegnum náin samskipti, á borð við kynlíf með einstaklingum sem eiga marga bólfélaga, taldar vera nokkuð miklar, bætti hún við.

Fyrsta tilfellið greinist í Danmörku

Frá því á laugardaginn hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) borist ríflega hundrað tilkynningar um apabólu í löndum þar sem sjúkdómurinn er ekki landlægur. Þar af eru 92 tilkynningar um tilfelli sem hafa verið staðfest á rannsóknarstofum og 28 tilkynningar um tilfelli, þar sem grunur leikur á að um apabólu sé að ræða.

Fyrsta tilfelli sjúkdómsins greindist í dag í Danmörku. Er það jafnframt fyrsta tilfellið í Skandinavíu.

Einkenni apabólu eru hiti, vöðvaverkir, bólgnir eitlar, kuldahrollur, þreyta og útbrot á höndum og andliti. Engin meðferð er fáanleg við sjúkdómnum en einkennin eiga að ganga yfir á tveimur til fjórum vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert