Pútín greiði langtímagjald fyrir villimennskuna

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í dag að mikilvægt væri að Vladimír Pútín Rússlandsforseti „greiði fyrir villimennsku sína í Úkraínu“.

„Rússland þarf að borga fyrir þetta í langan tíma,“ sagði Biden og vísaði til refsiaðgerða sem Bandaríkin og bandamenn þjóðarinnar hafa beitt Rússa vegna innrásarinnar í Úkraínu. 

Hann sagði málið ekki bara snúast um Úkraínu vegna þess að kínversk stjórnvöld fylgist með því hvort Vesturlönd dragi úr þrýstingi á Rússa. 

„Hvaða skilaboð myndi það senda Kína um kostnaðinn við að gera tilraun til að hertaka Taívan?“ spurði Biden. 

Hann gaf til kynna að af innrás Kínverja í Taívan myndi ekki verða en það ylti þó á því „hversu skýrt heimsbyggðin gerir Kína það“ að landið þyrfti að greiða fyrir slíka innrás.

Þá sagði Biden að Bandaríkin myndu hjálpa taívanska hernum að verjast ef Kínverjar réðust inn á eyjuna. 

mbl.is