Býst við sameiningu Írlands á næstu árum

Degi heilags Patreks fagnað í Dyflinni í mars síðastliðnum.
Degi heilags Patreks fagnað í Dyflinni í mars síðastliðnum. AFP

Mary Lou McDonald, formaður írska og norður-írska stjórnmálaflokksins Sinn Féin, spáir því að Írland verði sameinað að nýju á næsta áratug. Hún viðurkennir þó að flokkur hennar þurfi enn að sannfæra almenning á Norður-Írlandi um ágæti þess skrefs.

Flokkurinn bar sögulegan sigur úr býtum í kosningunum á Norður-Írlandi fyrr í mánuðinum. Batt hann um leið enda á aldarlanga valdatíð sambandssinnaðra flokka, sem vilja halda landinu undir stjórn Bretlands.

Endursameining Írlands var þó ekki meginkosningamál flokksins, heldur var áherslan lögð á málefni á borð við hækkandi framfærslukostnað til að vinna fylgi kjósenda.

Mary Lou McDonald, hér fyrir miðju, ávarpar blaðamenn.
Mary Lou McDonald, hér fyrir miðju, ávarpar blaðamenn. AFP

Breytt viðhorf á allri eyjunni

McDonald, sem leiðir flokkinn beggja vegna landamæranna, segir að sameining sé þó aftur á dagskrá núna, vegna breytts viðhorfs fólks á allri eyjunni.

„Við teljum að á þessum áratug munum við gangast undir stjórnskipulega breytingu, það er sameiningu Írlands á ný,“ sagði McDonald á blaðamannafundi í Lundúnum í dag.

„Við þurfum að gera það friðsamlega, lýðræðislega og með skipulegum hætti. Við erum mjög skýr um það að við þurfum að vinna hug og hjörtu, og það er enn stór umræða sem bíður okkar.“

Þinghúsið í Belfast, sem jafnan nefnist Stormont í daglegu tali.
Þinghúsið í Belfast, sem jafnan nefnist Stormont í daglegu tali. AFP

Skipt upp fyrir rúmri öld

Norður-Írland var sett á fót árið 1921, þegar Írlandi var skipt með lögum frá breska þinginu, þar sem meirihluti íbúa norðurhlutans var fylgjandi sameiningu við Bretland. Á sama tíma fékk Írland sjálfstæði undan bresku krúnunni og rétt til sjálfsstjórnar.

Landið var lengi hrjáð af erjum og ofbeldi vegna þessa, eða þar til friðarsamningar náðust árið 1998. Þá höfðu fleiri en 3.500 manns látið lífið í átökum um hvort sameina ætti löndin aftur.

Í friðarsamningunum er einnig kveðið á um að ríkisstjórn Bretlands geti boðað til atkvæðagreiðslu um endursameiningu, ef það virðist á einhverjum tímapunkti líklegt að meirihluti kjósenda kysi að sameinast Írlandi.

mbl.is