Í annað sinn sem forsetahjónin sjást saman

Forsetahjónin við jarðarför fyrrverandi forseta Úkraínu fyrr í maímánuði. Var …
Forsetahjónin við jarðarför fyrrverandi forseta Úkraínu fyrr í maímánuði. Var það í fyrsta sinn sem þau sáust saman eftir að stríðið hófst. AFP

Olena Selenska, eiginkona Volodimírs Selenskís, mætti með eiginmanni sínum í viðtal við úkraínska sjónvarpsstöð í gær en um var að ræða annað skiptið sem forsetahjónin sáust saman síðan stríð í Úkraínu hófst.  

„Enginn tekur eiginmann minn frá mér, ekki einu sinni stríðið,“ sagði Selenska í viðtalinu en viðurkenndi þó að verulega hefði dregið úr samverustundum þeirra. „Hann lifir  fyrir vinnuna sína, við fáum varla að sjá hann. Við sáum hann ekkert í tvo og hálfan mánuð. Við töluðum bara í símann. Nú sjáumst við stundum.“

Deyfð og kvíði

Selenska hefur verið í felum enda hafa úkraínsk stjórnvöld óttast um öryggi hennar í stríðinu.

„Fjölskyldu okkar var stíað í sundur eins og öllum öðrum úkraínskum fjölskyldum,“ sagði Selenska. „Ég er mjög þakklát fyrir þetta viðtal vegna þess að nú fáum við að verja saman tíma.“

Um daginn þegar stríðið hófst í lok febrúarmánaðar sagði Selenska:

„Ég man að ég vaknaði við skrýtin hljóð að utan, eins og allir gerðu líklega. Það var dimmt, næstum því nótt, og ég sá að Volodimír var ekki við hlið mér. Þegar ég fór inn í næsta herbergi var hann þegar klæddur í jakkaföt en var bindislaus. Ég spurði hann: „Hvað er í gangi?“ og hann sagði: „Það er byrjað.“ Ég get ekki lýst tilfinningunum: Kvíði og deyfð. Hann sagði mér þetta og fór svo. Eftir það sáumst við ekki í langan tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert