Navalní tapaði áfrýjunarmáli í Moskvu

Dómstóll í Moskvu úrskurðaði að níu ára dómur skyldi standa …
Dómstóll í Moskvu úrskurðaði að níu ára dómur skyldi standa óbreyttur. AFP/Alexander NEMENOV

Stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní tapaði í dag áfrýjunarmáli sínu við dómstól í Moskvu, en hann hafði áfrýjað níu ára fangelsisdómi sem hann fékk í mars á þessu ári eftir að hafa verið fundinn sekur um fjárdrátt.

Stuðningsmenn Navalní hafa fordæmt dóminn og segja hann tilkominn vegna stjórnmálaskoðana hans og gagnrýni á stjórnvöld. AFP-fréttastofan greinir frá.

Navalní, sem hefur gagnrýnt Vladimír Pútín, forseta Rússlands, harðlega var fangelsaður á síðasta ári vegna gamalla ásakana um fjársvik eftir að hafa lifað af eiturefnaárás sem hann sakaði rússnesk stjórnvöld um að standa á bak við. Þá fékk hann tveggja og hálfs árs fangelsisdóm sem var svo lengdur í níu ár í mars á þessu ári.

Dómstóll í Moskvu úrskurðaði í dag að dómurinn skyldi standa óbreyttur og að afplánun skyldi hefjast strax. Það þýðir að Navalní verður fluttur á fanganýlendu stjórnvalda til að afplána dóminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert