Rússar steli korni af Úkraínu og selji erlendis

Dmitró Kúleba utanríkisráðherra Úkraínu.
Dmitró Kúleba utanríkisráðherra Úkraínu. AFP

Dmitró Kúleba, utanríkisráðherra Úkraínu, heldur því fram að „rússneskir þjófar“ séu að stela úkraínsku korni til þess að selja það erlendis. Kúleba segir að korni hafi verið hlaðið á skip sem muni sigla um Bosporus-sund, sem liggur á milli evrópsku og asísku hliða Tyrklands, og selja eigi það erlendis.

„Ég bið öll ríki um að sýna árvekni og afþakka öll slík boð. Ekki kaupa það sem hefur verið stolið. Ekki eignast aðild að rússneskum glæpum,“ skrifaði Kúleba á samfélagsmiðilinn Twitter.

Rússnesk yfirvöld segja að myndir sem sýna fólk hlaða korni á skip við Krímskaga í Úkraínu séu falsaðar.

Von der Leyen segir einnig að Rússar steli úkraínsku korni

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sakaði rússnesk stjórnvöld í dag um að nota mat sem vopn í stríðinu í Úkraínu. Hún sagði að Rússland væri að taka korn ófrjálsri hendi og hindra ferðir skipa um svæði sem landið hefur nú stjórn á. 

Þá sagði von der Leyen að afleiðingar þessa væru strax greinanlegar í hærra verði fyrir matvæli, áburð og orku. Leiddi það til meiri þjáninga fyrir þá sem standa hvað höllustum fæti.

mbl.is