Afnema aldursmark í rússneska hernum

Frá miðborg Moskvu í síðustu viku.
Frá miðborg Moskvu í síðustu viku. AFP

Rússneska þingið samþykkti í dag lög þar sem efra aldursmark þeirra, sem gengið geta í herinn, er afnumið. Stjórnvöld í Kreml gætu með þessu reynt að ráða fleiri hermenn til stríðsrekstursins í Úkraínu.

Samkvæmt gildandi lögum mega aðeins rússneskir ríkisborgarar á aldrinum 18-40 ganga í herinn, og erlendir ríkisborgarar á aldrinum 18-30 ára.

Pútín þarf að skrifa undir

Báðar deildir þingsins samþykktu frumvarpið og nú fer það til undirskriftar Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.

„Við þurfum að styrkja herlið okkar, til að hjálpa varnarmálaráðuneytinu. Æðsti yfirmaður hersins [Pútín] er að gera allt til að tryggja hernum sigur og auka skilvirkni hans,“ sagði forseti neðri deildar þingsins, Vjatseslav Vólódín, að því er fram kemur á vef þingsins.

Þessar fregnir berast degi eftir að staðfest var að rússneskur hershöfðingi á eftirlaunum var skotinn niður yfir Lúhansk-héraði í Úkraínu á sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert