Birti myndir af skotfærunum á Instagram

Mynd sem Salvador Ramos birti á Instagram reikning sínum, árásamaðurinn …
Mynd sem Salvador Ramos birti á Instagram reikning sínum, árásamaðurinn réðst inn í grunnskóla í gær í Uvalde í Texas í Bandaríkjunum og skaut nítján börn til bana. AFP

Árásarmaðurinn sem réðst inn í grunnskóla í gær í Uvalde í Texas í Bandaríkjunum og skaut þar nítján börn og tvo fullorðna til bana heitir Salvador Ramos. Hann átti líf varðað einelti og geðheilbrigðisvandamálum að baki og svipar það til lífs annarra sem hafa ráðist á skóla í Bandaríkjunum með þessum hætti.

Ramos lést í gær þegar lögregla skaut hann til bana í grunnskólanum þar sem hann hafði komið sér fyrir í kennslustofu og tekið til varna. Hann var átján ára nemandi í háskóla í Uvalde.

Fyrir árásina hafði Ramos birt myndir á Instagram-aðgangi sínum af tveimur byssum og aðra mynd af skothylki. Aðra myndina af Instagram-aðgangi hans er hægt að sjá hér fyrir neðan.  Aðgangi hans á Instagram hefur verið eytt.

Skjáskot af eyddum Instagram reikning Ramos sem sýnir hann halda …
Skjáskot af eyddum Instagram reikning Ramos sem sýnir hann halda á skothylki. AFP

Frænka Ramos sagði í samtali við fréttastofu Washingon Post að Ramos hafi verið lagður í einelti sem barn fyrir málhelti. Hafði Ramos þá ítrekað beðið ömmu sína um að fá að hætta í skóla. Ramos skaut ömmu sína áður en hann keyrði í grunnskólann þar sem hann framdi árásina. Amma Ramosar var síðar flutt með þyrlu á spítala, þar sem gert var að sárum hennar.

Þá átti Ramos einnig í útistöðum við móður sína, sem leiddu til þess að nokkrum sinnum þurfti að kalla til lögreglu. 

Fréttastofa US Media greindi frá því í dag að Ramos hefði átt það til að skaða sjálfan sig. Mætti hann til dæmis einu sinni í almenningsgarð með skurði í andlitinu sem hann hafði sjálfur veitt sér.

Einelti, geðheilbrigðisvandamál og sjálfskaði hefur verið algengt vandamál hjá einstaklingum eins og Ramos, sem hafa mætt í skóla og skotið fólk til bana. Var það raunin hjá árásarmönnum í skotárás í Columbine í Colorado í Bandaríkjunum sem myrtu þrettán manns árið 1999. 

Sama má segja um árásarmann í Virginíu sem skaut 32 til bana árið 2007. Sá árásarmaður vísaði til drengjanna sem skutu fólk til bana í Columbine sem píslarvotta, í myndbandi sem hann tók upp fyrir árásina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert