Fjórar sprengjur urðu tólf að bana

Ættingjar fórnarlamba sprenjuárásarinnar koma saman fyrir utan spítala í Mazar-i-Sharif …
Ættingjar fórnarlamba sprenjuárásarinnar koma saman fyrir utan spítala í Mazar-i-Sharif í Afganistan. AFP

Fjórar sprengjur sprungu í Afganistan í dag í þremur rútum og einni mosku sem urðu tólf manns að bana. Ríki íslams hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni.

Nokkuð hefur dregið úr tíðni sprengjuárása í Afganistan eftir að Talíbanar náðu völdum þar í ágúst á síðasta ári en töluvert hefur verið um sprengjuárásir aftur í heilögum mánuði múslima Ramadan.

Þrjár sprengjur sprungu í borginni Mazar-i-Sharif og voru sprengjurnar um borð í þremur rútum á sitthvorum stöðum í borginni samkvæmt tilkynningu frá lögreglu í borginni. Ein sprengjan sprakk í mosku í höfuðborg Afganistan Kabúl. Alls létu tólf lífið og 25 særðust. 

Nokkrum tímum eftir árásina lýsti Ríki íslams yfir ábyrgð á sprengjunum á samfélagsmiðlinum Telegram. 

Enn er óljóst hvort að sprengjuárásin hafi verið miðuð gegn ákveðnum þjóðfélagshópum. Ríki íslams og Talíbanarnir eiga í hatrömmum átökum. Talíbanar halda því fram að þeir séu búnir að sigra Ríki íslams en ljóst er að Ríki íslams ógnar enn öryggi almennra borgara.

mbl.is