Flýta ferli um útvegun rússneskra vegabréfa

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP/Alexei Nikolskí

Vladimír Pútín Rússlandsforseti undirritaði í dag tilskipun um einföldun málsmeðferðar sem felur í sér að útvega íbúum í héruðunum Kerson og Saporisjía, sem eru í suðurhluta Úkraínu, rússnesk vegabréf.

Rússneskir hermenn hafa nú náð fullu valdi yfir Kerson en Úkraínumenn hafa enn stjórn yfir hluta af Saporisjía.

Rússneskir embættismenn og úkraínskir embættismenn hliðhollir Rússum í héruðunum hafa sagt að þau gætu orðið hluti af Rússlandi.

Ekki miklar kröfur

Tilskipunin í dag svipar til þeirrar sem var samþykkt árið 2019 sem kvað á um að einfalda málsmeðferð til að hægt væri að auðvelda íbúum Donetsk- og Lúhansk-héraðanna í Úkraínu að fá rússnesk vegabréf.

Ekki er gerð krafa um að umsækjendur hafi átt heima í Rússlandi, að þeir geti staðist rússneskt tungumálapróf eða að þeir að geti sýnt fram á ákveðna fjárhagslega getu.

Rúblan orðinn opinber gjaldmiðill

Á mánudag tilkynntu yfirvöld í Kerson að rúblan, rússneski gjaldmiðillinn, væri orðinn opinber gjaldmiðill héraðsins. Í gær var þetta einnig tilkynnt á þeim svæðum innan Saporisjía sem eru undir stjórn Rússa.

mbl.is