Foreldrar barna sem létust lýsa sorginni

Feðginin Angel Garza og Amerie Jo. Angel hvetur fólk til …
Feðginin Angel Garza og Amerie Jo. Angel hvetur fólk til að faðma fjölskyldumeðlimi sína. Ljósmynd/Angel Garza/Facebook

Xavier Lopez og Amerie Jo Garza, sem bæði voru tíu ára gömul, voru á meðal þeirra nítján barna sem létust eftir skotárás á grunnskóla þeirra í Uvalde í Texas-ríki í Bandaríkjunum. Fjölskyldur barnanna tveggja hafa staðfest fráfall þeirra. Þá hefur móðir Jaliuh Nicole Silguero staðfest að stúlkan hafi verið drepin í árásinni. 

„Hjarta mitt er mölbrotið,“ skrifaði hún í færslu á samfélagsmiðlinum Facebook.

Segið þeim hvað þið elskið þá

Angel Garza, faðir Amerie Jo Garza, deildi mynd af þeim saman á Facebook. 

„Takk öll fyrir bænir ykkar og fyrir hjálpina við að finna barnið mitt. Hún er fundin og flýgur nú hátt með englunum. Gerið það fyrir mig að taka ekki einni einustu sekúndu sem sjálfsögðum hlut. Faðmið fjölskyldumeðlimi ykkar. Segið þeim hvað þið elskið þá. Ég elska þig Amerie Jo,“ skrifaði Garza með myndinni. 

Árásarmaðurinn hóf skothríð klukkan hálf tólf fyrir hádegi í gær að staðartíma. Samkvæmt því sem lögreglan hefur gefið út skaut hann ömmu sína til bana áður en hann lagði af stað en árásarmaðurinn var einungis 18 ára gamall. Hann hét Salvador Rolando Ramos en lögregla skaut hann til bana á vettvangi.

mbl.is