Líf í verslunum en lík finnast enn í húsarústum

Kaffihúsið Piparkakan skrifaði á spónarplötur í gluggunum að búið væri …
Kaffihúsið Piparkakan skrifaði á spónarplötur í gluggunum að búið væri að opna á ný. Ljósmynd/Karíne

Verulegs skorts á nauðsynjavörum er farið að gæta í borginni Ódessu og líkir Jaroslav þessu við hallærið sem var í Úkraínu og öðrum fyrrverandi ríkjum Sovétríkjanna eftir fall þeirra í byrjun tíunda áratugarins. Í austurhluta Úkraínu er lífið hins vegar að færast hægt og rólega í eðlilegra horf, þrátt fyrir að enn heyrist í sprengingum við og við og íbúar horfa til þess að koma hjólum efnahagslífsins af stað á ný. Á sama tíma hefur fjöldi líka fundist þar við niðurrif húsa sem eyðilögð voru í árásum Rússa.

Sergei veltir fyrir sér hvort rétt sé fyrir eiginkonu hans að snúa aftur heim með son þeirra sem er enn á fyrsta ári, en hættan af árásum Rússa, sem enn eiga sér stað, hræðir þau frá þeirri ákvörðun.

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessu í suður­hluta lands­ins, Ser­gei í Lvív í vest­ur­hluta lands­ins og Kar­íne í borg­inni Karkív í aust­ur­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is upp­lif­un­um sín­um og greina frá því hvað efst er í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð braust út í landi þeirra.

Þriðjudagur 24. maí

Karíne í Karkív

Í 90 daga höfum við búið við stríðástand. Þrír mánuðir hafa liðið síðan þetta hófst, en Pútín trúði í upphafi að Rússland gæti tekið yfir Úkraínu á þremur dögum. Við þraukuðum hins vegar og erum jafnvel orðin vön þessu ástandi, þó þetta sé alls ekki eðlilegt ástand.

Loftvarnaflauturnar glumdu tvisvar eða þrisvar í nótt og í morgun heyrði ég sprengingu í norðri. Daginn áður voru hins vegar nokkrar loftárásir og sú fyrsta um nóttina. Þannig hæfði rússnesk eldflaug Pavlovo Pole hverfið hér í Karkív, en sem betur fer lést enginn, þó að einn hafi slasast. Eldflaugin grandaði stoppistöð fyrir almenningssamgöngur og skemmdi nálægt hús. Fleiri eldflaugar hæfðu önnur hverfi.

Í gær var greint frá því að samtals 150 lík íbúa hefðu fundist í rústum 98 húsa sem höfðu hrunið eða skemmst í árásum Rússa. Unnið var að því að rífa húsin, eða það sem eftir stóð af þeim þegar líkin fundust.

Íbúum í hverfinu Saltivka í norðurhluta borgarinnar var leyft að fara aftur í íbúðir sínar, en systir eins nágranna míns býr þar og var í íbúðinni sinni þegar árásir Rússa hófust 24. Febrúar. Um 17 eldflaugar hæfðu húsið og fjölmargar íbúðir fyrir ofan hennar eyðilögðust og sprengingarnar eyðilögðu rúður og þeyttu öllu lauslegu um allt í íbúðinni hennar. Konan þurfti að hlaupa að heiman þennan dag með næstum því engar eigur. Í gær fékk hún loks að fara til baka og gat þá sótt föt og einhverja hluti sem voru í lagi. Hún ákvað samt að dvelja ekki í íbúðinni.

Lífið hér í Karkív er samt hægt og rólega að komast í eðlilegri farveg. Eitt af uppáhaldskaffihúsunum mínum, sem er með franskar áherslur og heitir Paris, opnaði nýlega. Ég kíkti strax við þar þegar ég sá að það hafði opnað. Afgreiðslukonan sagði mér að þetta væri fyrsti dagurinn eftir að þau opnuðu og bað mig um að styðja starfsemina. „Við munum ekki standa þetta af okkur án ykkar,“ sagði hún og ég keypti mér Popadour frúar-köku hjá henni. Annað kaffihús sem heitir Piparkakan hóf einnig starfsemi á ný, en enn eru þó spónaplötur í gluggum þess til að koma í veg fyrir að glerið brotni í sprengingum. 

Popadour frúar-kaka frá kaffihúsinu París.
Popadour frúar-kaka frá kaffihúsinu París. Ljósmynd/KaríneÍ dag komum við eiginmaður minn einnig við í bókabúð og keyptum þar heimspekibók og aðra sagnfræðibók eftir sagnfræðinginn Dmitro Bagalí sem er um sögu Slobidska-hluta Úkraínu, en það er sá hluti þar sem Karkív er. Gata hér í nágrenninu er meira að segja nefnd eftir Bagalí, en hún hafði áður verið nefnd eftir einhverjum sovéskum einstaklingi.

Þegar ég var í námi á sovéttímanum lærðum við ekki um sögu héraðsins eða svæðisins þar sem við búum. Við lærðum heimssöguna og sögu Sovétríkjanna, en engum tíma var varið í þjóðfræði, nærsamfélagið eða mannfræði. Bæði heimspekin og sagnfræðin sem við lærðum var afskræmd og við lærðum frekar um sögu kommúnistaflokksins í Sovétríkjunum og eins og ætla má var sú saga mjög bjöguð.

Þegar við keyptum bækurnar þakkaði búðareigandinn okkur fyrir stuðninginn og sýndi mér aðra bók með spakmælum Seneca. Flestir hafa nú verið án vinnu í þrjá mánuði og verslun og þjónusta er loks að komast hægt af stað á ný. Fæstir eiga nokkurn sparnað, eftir að hafa þurft að kaupa helstu nauðsynjar síðustu mánuði. Þess vegna tel ég það einmitt mikilvægt að byrja að kaupa eitthvað meira en bara helstu nauðsynjar til að koma efnahagskerfinu aftur af stað og þannig að fólk geti átt í sig og á.

Á gönguferð okkar í dag sá ég sporvagn, raflínuvagn og strætisvagn. Þessi hefðbundnu samgöngutæki eru nú orðin næstum því óvenjuleg! Svo opnaði neðanjarðarlestakerfið formlega á ný í dag.

Sergei í Lvív

Nítugasti dagur stríðsins. Það eru nákvæmlega þrír mánuðir síðan átökin hófust. Það að segja að þessir þrír mánuðir hafi verið erfiðustu mánuðir lífsins gefur því samt ekki nægjanlegt vægi. Mér líður eins og allavega heilt ár hafi liðið. Heilinn neitar að samþykkja sumt af því sem hefur gerst og það er svo mikið um sorg og dauða í kringum mann. Margir höfðu varað við innrás á síðustu árum, en fáir höfðu hlustað og ég var einn þeirra sem átti ekki von á þessu ef ég er alveg hreinskilinn.

Dagurinn í dag var mjög árangursríkur í vinnunni. Yfirmaður fyrirtækisins kom aftur eftir að hafa verið erlendis og við skipulögðum fund með öllum starfsmönnunum og svo eftir góðan vinnudag slakaði hópurinn á saman. Ég heimsótti svo foreldra mína og aðstoðaði þau með ýmislegt þangað til seint um kvöldið.

Gærdagurinn var svipaður. Mikið að gera í vinnunni, en síðan ræddi ég lengi við eiginkonu mína, meðal annars um mögulega komu þeirra aftur til baka eftir að hafa flúið í burtu. Þrátt fyrir vilja okkar beggja til að sameina fjölskylduna teljum við áfram betra að þau dvelji innan Evrópusambandsins meðan stórskotaliðsárásir eiga sér stað inn á milli.

Það er ekki langt síðan 87 manns létust í eldflaugaárás á Tjernikív héraðið og þar með er borgin okkar einnig enn á hættusvæði. Við þurfum að hugsa um son okkar sem er enn á fyrsta ári og því er áfram nauðsynlegt að þau verði erlendis. Maður er því ekkert of glaður með stöðuna.

Jaroslav í Ódessu

Við upplifum nú aftur hvernig það var að búa hér á tíunda áratugnum. Maður hefur heyrt sögur um hvernig ástandið var eftir upplausn Sovétríkjanna og maður man að hluta til eftir einhverju frá því að maður var barn. Þetta voru tímar erfiðleika og hallæris hér í samfélaginu og öðrum fyrrverandi Sovétríkjum.

Langar raðir bíla eru við eldsneytisstöðvar í Ódessu.
Langar raðir bíla eru við eldsneytisstöðvar í Ódessu. Ljósmynd/Jaroslav

Það er ekki hlaupið að því að nálgast nauðsynjavörur eins og eldsneyti og lyf og í gær beið ég í fimm klukkustundir til að fá tíu lítra af bensíni. Það var þó ekki það versta, því meðan við biðum í röðinni á bensínstöðinni varð einhver tæknileg bilum í 40-50 mínútur. Ég og félagi minn vorum alveg uppgefnir eftir langan dag og sofnuðum í bílnum í þessari röð. Svo þegar dælan fór að virka aftur tóku aðrir í biðröðinni fram úr okkur án þess að láta okkur vita í örugglega 20 mínútur þangað til félagi minn vaknaði. Auðvitað vorum við pirraðir, en gátum ekkert gert nema að halda áfram og fara aftur í sjálfboðastarfið sem beið okkar.

Jaroslav skoðar eitt þeirra húsa sem skemmdust í sprengjuárásum Rússa …
Jaroslav skoðar eitt þeirra húsa sem skemmdust í sprengjuárásum Rússa á Ódessa.
mbl.is