Vesturlönd skorti styrk og samstöðu

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, segir Vesturlönd enn tvístruð í stuðningi sínum við Úkraínu í vörn landsins gegn innrás Rússa, sem nú hefur varað í þrjá mánuði.

Forsetinn ávarpaði þing Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss í morgun og ítrekaði að land sitt þurfi meiri vopn til að hrinda innrásinni á bak aftur.

„Eining snýst um vopn. Spurningin mín er, hvar er þessi eining í raun og veru? Ég sé hana ekki,“ sagði Selenskí.

Selenskí ávarpaði þing ráðsins í Davos.
Selenskí ávarpaði þing ráðsins í Davos. AFP

Bað um „hámarksþvinganir“

Stjórnvöld Bandaríkjanna og valinna Evrópuríkja hafa varið því sem samsvarar milljörðum bandaríkjadala í vopnasendingar til Úkraínu. Stjórnvöld í Kænugarði hafa þó kallað eftir frekari stuðningi og meðal annars aðild að Atlantshafsbandalaginu.

Við upphaf þingsins á mánudag bað Selenskí um fleiri vopn og „hámarksþvinganir“ gegn Rússlandi, sem fælu í sér bann á öllum viðskiptum við landið, og sömuleiðis á olíuinnflutningi þaðan.

Í dag sagði forsetinn að Úkraína væri þakklát fyrir stuðning Bandaríkjaforsetans Joe Biden. Meiri staðfestu þurfi þó í nærumhverfinu.

„Við erum á evrópska meginlandinu og við þörfnumst stuðnings sameinaðrar Evrópu.“

Samhljóm skorti innan NATO

Nefndi hann sérstaklega nágrannaríkið Ungverjaland, en yfirvöld þar hafa sagst andsnúin áformum um að Evrópusambandið setji bann við innflutningi rússneskrar olíu, eins og krafist hefur verið í Kænugarði.

Þá vísaði hann einnig til skorts á samhljómi innan Atlantshafsbandalagsins um inngöngu Svíþjóðar og Finnlands í bandalagið, en Recep Tayyip Erdogan forseti Tyrklands hefur slegið nokkra varnagla þar við.

„Er sameining um inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í NATO? Nei, nei. Svo, er hægt að tala um sterk, sameinuð Vesturlönd?“ spurði úkraínski leiðtoginn og svaraði um leið: „Nei.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert