Lögreglumennirnir hafi verið of seinir inn í skólann

Mikil sorg er í Uvalde vegna skotárásarinnar. Meðfylgjandi mynd er …
Mikil sorg er í Uvalde vegna skotárásarinnar. Meðfylgjandi mynd er tekin við minningarathöfn. AFP

Vegfarendur sem urðu vitni að skotárás á barnaskóla í Uvalde í Texas á þriðjudag hvöttu lögreglu til þess að fara inn í skólann þegar skotárásin hófst. Það gerðu lögreglumennirnir ekki um leið. Árásarmaðurinn drap 19 börn og tvo fullorðna áður en lögregla skaut hann til bana. 

AP fréttastofan greinir frá.

„Farið þarna inn! Farið þarna inn!“ hrópuðu konur sem staddar voru í nágrenninu fljótlega eftir að byssumaðurinn hleypti af fyrstu skotunum, að sögn Juan Carranza sem varð vitni að atburðunum. Carranza býr beint á móti skólanum sem um ræðir. Hann sagði að lögreglumennirnir hefðu ekki farið inn í skólann þegar konurnar grátbáðu þá um það. 

Faðirinn vildi taka málin í sínar eigin hendur

Javier Cazares, sem missti dóttur sína í árásinni, sagðist hafa hlaupið í átt að skólanum þegar hann heyrði af árásinni og var lögreglan enn stödd fyrir utan skólann þegar Cazares kom á vettvang.

Hann var í uppnámi yfir því að lögreglan væri ekki á leið inn og velti því upp við nokkra nærstadda hvort þau ættu að taka málin í sínar eigin hendur.

„Við skulum bara flýta okkur inn því lögreglan er ekki að gera neitt af því sem hún á að gera,“ sagði hann á vettvangi. 

Fylgdist með atburðarásinni fara af stað

Nokkrum mínútum áður hafði Carranza séð árásarmanninn, Salvador Ramos, aka bíl sínum í skurð fyrir utan skólann, grípa hálfsjálfvirkan riffil og skjóta á tvo menn fyrir utan útfararstofu í grenndinni. Þeir meiddust ekki.

Embættismenn segja að Ramos hafi „rekist á“ öryggisvörð sem stóð fyrir utan skólann en misvísandi skilaboð hafa borist frá yfirvöldum um það hvort mennirnir hafi skotið á hvorn annan. 

Eftir að Ramos hljóp inn í skólann skaut hann í átt að tveimur lögreglumönnum fyrir utan bygginguna, að sögn Travisar Considine, talsmanni almannavarna í Texas. Lögreglumennirnir særðust.

Eftir að Ramos komst inn í skólann rauk hann inn í eina kennslustofuna og hóf skothríð á nemendur og kennara með þeim hræðilegu afleiðingum sem nefndar voru hér að ofan.

Carranza sagði ljóst að lögreglumennirnir hefðu átt að fara fyrr inn í skólann.

mbl.is