Norðmenn frá helvíti

Hjónin hrikalegu í Porsgrunn „Rýrt mun verða fyrir honum smámennið …
Hjónin hrikalegu í Porsgrunn „Rýrt mun verða fyrir honum smámennið ok eigi er ráð að hafa færri en þrjá tigu manna,“ sagði Sigurður svínhöfði er lögð voru á ráðin um fyrirsát Gunnars á Hlíðarenda og föruneytis hans við Knafahóla. Um það skal ósagt látið hvort þrír tugir manna fengju lagt Knut og Marte Øines svo glatt. Ljósmynd/Torbjørn Tanberg

Norsku hjónin Knut Øines og Marte Lian Øines eru búsett í Porsgrunn í Suður-Noregi, bæði vel sjóaðir keppendur og meistarar í vaxtarrækt og body fitness um allan heim og skemmta sér vel í tómstundum við að sigla frístundafleyi sínu milli huggulegra hafnarbæja við suðurströnd Noregs þar sem þau hittust fyrir í síðustu viku, þjóðhátíðardaginn 17. maí, er þau lögðu að bryggju í Tønsberg, sem er vinsæll áningarstaður norsks siglingafólks á sumrin.

Blaðamaður þekkir lítillega til Knut og Marte gegnum menningarkima líkamsræktarfólks í Tønsberg og nágrenni þar sem íturvöxnum mönnum og konum þykir margt leiðinlegra en að rífa í kalt stálið sér til yndisauka. Var þeim hjónum boðið í spjall um lífið og keppnismennskuna og brugðust vel við.

Hjónin geðþekku, Knut og Marte Lian Øines, hann frá Tønsberg, …
Hjónin geðþekku, Knut og Marte Lian Øines, hann frá Tønsberg, hún frá Þrándheimi og nú búsett í Porsgrunn við suðurströnd Noregs. Þau sigla töluvert á sumrin um Noreg og Svíþjóð og detta þá inn í líkamsræktarstöðvar í hverri höfn því keppnislífsstíll þeirra gefur engin grið. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Margt er um manninn á bryggjunni í Tønsberg 17. maí, sólskin og hiti, sem ekki er nú alveg föst regla í Noregi á þjóðhátíð. Knut og Marte sitja í makindum um borð, hann í jakkafötum en hún klædd hefðbundnum norskum þjóðbúningi, bunad, enda láta fæstir Norðmenn sjá sig óspariklædda 17. maí. Eins syndsamlega og það hljómar þurfa hjónin og gestur þeirra að leita inn úr sólinni og í setustofu bátsins svo taka megi samtalið upp án skarkalans frá bryggjunni. Hefur þetta helmassaða fólk gert nokkuð annað en að lyfta lóðum um sína daga eða hvað?

„Já já, ég byrjaði nú í frjálsum íþróttum og keppti heilmikið í þeim og eins á skíðum og bobsleða,“ svarar Knut sem er menntaður verkfræðingur frá Glasgow í Skotlandi og ber auk þess gráðu í viðskiptafræði frá BI-viðskiptaháskólanum í Sandefjord. Þá kenndi hann stærðfræði og eðlisfræði um árabil en hefur nú helgað sig rekstri fasteigna, á fjölda íbúða í Tønsberg og nágrenni sem hann leigir út. „Ég kem og fer út með ruslið,“ segir Knut og hlær, og á við að hann rekur þetta fyrirtæki sitt einn, annast bókhald, viðhald, samskipti við leigjendur og jafnvel þrif.

Knut og Marte gengu í það heilaga í Brevik-kirkju í …
Knut og Marte gengu í það heilaga í Brevik-kirkju í Porsgrunn 19. júní 2021 en við suðurströnd Noregs er enginn hörgull á ægifagurri náttúru sem nýtist vel í bakgrunn brúðkaupsmynda. Ljósmynd/Torbjørn Tanberg

Maraþonhlaupari til að byrja með

Marte er hins vegar frá Þrándheimi, útstillingahönnuður þótt hún starfi ekki við það nú. „Ég vinn við að þrífa vörubíla núna,“ segir hún frá og ljóst af mæli hennar að hún hefur varðveitt hinn sérstaka Þrándheimsframburð vel enda aðeins búsett um fárra ára skeið á Suðurlandinu. Enn fremur hefur frammistaða Marte á sviðinu unnið henni stöðu sem atvinnukeppnismanneskja í body fitness, eins konar mýkri og kvenlegri útgáfu af gömlu hefðbundnu vaxtarræktinni.

Hjónin spariklædd í blíðunni 17. maí á bryggjunni í Tønsberg …
Hjónin spariklædd í blíðunni 17. maí á bryggjunni í Tønsberg þar sem mjög gestkvæmt er yfir sumarmánuðina og takmarkalaus umferð siglingafólks sem leggur bátum sínum við bryggjuna til lengri eða skemmri dvalar og skoðar mannlífið í því sem samkvæmt Snorra Sturlusyni er elsti bær Noregs, 1.150 ára gamall um þessar mundir. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég var nú maraþonhlaupari til að byrja með en fór svo að lyfta lóðum og þar kom að ég fór að heyra út undan mér að ég ætti nú að prófa að keppa,“ segir hún frá. Teningunum hafi svo verið kastað þegar vinkona hennar steig á sviðið árið 2011 og Marte fékk örlitla innsýn í blákaldan raunveruleika keppandans. Sjálf tók hún skrefið þó ekki fyrr en árið 2016 og keppti þá í fyrsta sinn í body fitness.

„Þetta fór nú rólega af stað hjá mér, ég var að lenda í svona fimmta til sjötta sæti á fyrstu mótunum en svo gerðist það að ég hreppti fyrsta sætið í Sandefjord 2017,“ heldur Marte áfram. Það var svo árið 2018 sem heilladísirnar skælbrostu við Þrándinum og hún varð Noregsmeistari í body fitness, Norðurlandameistari í Finnlandi sama ár auk þess að keppa á mjög eftirminnilegu atvinnumannamóti í Kína 2019 þar sem hún hreppti 3. sætið. Síðasta afrek hennar sem leikmanns (e. amateur) var hins vegar 3. sæti á HM leikmanna í Póllandi.

Á keppnisferðalagi í Dúbaí þar sem vaxtarrækt er gríðarlega vinsæl …
Á keppnisferðalagi í Dúbaí þar sem vaxtarrækt er gríðarlega vinsæl eins og víðar í austrinu. Knut segir Íslendinga bera mikla virðingu fyrir kraftasporti, annað en Norðmenn sem séu fastir í ólæknandi skíðagöngublæti. Ljósmynd/Aðsend

Kraftaverkakonan Tone Opheim

Þau Knut nefna bæði í kór að hrein vatnaskil hafi orðið á keppnisferli Marte þegar nýr þjálfari, Tone Opheim, tók við þjálfun hennar. Hafi Opheim þessi af hreinu listfengi náð að draga það besta fram hjá Marte og lyfta henni með glans úr sjötta sæti til æðstu metorða enda hreinlega þjálfari á heimsmælikvarða að sögn hjónanna og nefna þau til jarteikna að Marte varð atvinnukeppnismanneskja í body fitness árið 2018.

Hjónin þreytast ekki á að mæra Tone Opheim sem tók …
Hjónin þreytast ekki á að mæra Tone Opheim sem tók við þjálfun Marte á ögurstundu og lyfti henni til æðstu metorða í body fitness. Kveða þau Opheim lunkna við að ná því allra besta út úr Marte. Ljósmynd/Aðsend

Knut var hins vegar orðinn fertugur þegar hann gekk vaxtarræktinni á hönd, en til gamans má geta þess að aldursmunurinn á þeim hjónum er 20 ár, hann fæddur 1965 og hún 1985, og var vettvangur kynna þeirra samfélagsmiðillinn Instagram. Knut hóf ferilinn árið 2005 og átti hann þá þegar Noregsmeistaratitla í langstökki, bobsleða og róðri. „Það er nú dálítið gaman að segja frá því hvernig þetta hófst,“ segir norski bergrisinn og hagræðir sér í sætinu svo myndarlegur bátur þeirra hjóna tekur greinanlega dýfu á stjórnborða.

„Við vorum þrír vinir sem urðum allir fertugir þetta ár og ákváðum að halda keppni innbyrðis, taka myndir af okkur og útnefna þann svo sigurvegara sem væri í besta forminu. Svo guggnuðu þeir báðir á þessu og ég stóð einn eftir,“ rifjar Knut upp og segist þá hafa verið kominn í þokkalegasta form. Hann hafi þá látið kylfu ráða kasti og stigið á sviðið um haustið á meistaramótinu í Larvik.

Knut skorinn svo einna helst minnir á áferð hrafntinnu, myndin …
Knut skorinn svo einna helst minnir á áferð hrafntinnu, myndin er tekin einni viku fyrir HM í vaxtarrækt árið 2020 þegar Norðmaðurinn náði þeim langþráða árangri að verða heimsmeistari í flokki 50+ ára, þá 55 ára gamall. Ljósmynd/Aðsend

„Þar lenti ég í neðsta sæti,“ segir verkfræðingurinn sem síðar átti eftir að verða heimsmeistari í vaxtarrækt enda altalað að fall sé fararheill. Næsti vettvangur var Noregsmeistaramótið þar sem hann hafnaði í þriðja sæti. „En við vorum bara fjórir í mínum þyngdarflokki,“ bætir hann við og seyrið glott leikur um varirnar. „Ég ætlaði bara að keppa einu sinni í vaxtarrækt og þá væri maður búinn að prófa það en hugsaði svo með mér „fjandinn hafi það“ og var ekkert sáttur við þessa byrjun.“

Þarf að kaupa buxur í barnadeildinni

Hann hafi því keppt í þriðja sinn 2007 og náð þeim glæsilega áfanga að verða Noregsmeistari í mínus 100 kg flokki í vaxtarrækt bankahrunsárið 2008. Í kjölfarið varð Knut Norðurlandameistari árið 2011, hafnaði í 5. sæti á HM 2013 og 3. sæti 2015, Noregsmeistari í flokki 40 ára og eldri 2019 áður en hann stóð með pálmann í höndunum sem heimsmeistari í flokki eldri en 50 ára á HM á Spáni árið 2020, í opnum þyngdarflokki, 101,7 kg við vigtun. Er hér aðeins stiklað á því stærsta af ógrynni móta á ferli hans en Knut hefur keppt alls sex sinnum á HM og lent í fyrsta, þriðja, fimmta, tvisvar í sjöunda sæti og í 10. sæti 2009. „Ég hef líka rosalega oft verið í öðru sæti á alls konar mótum,“ segir þessi stórvaxni Norðmaður frá.

Á keppnisferðalagi í Suður-Ameríku í desember. Marte lenti illa í …
Á keppnisferðalagi í Suður-Ameríku í desember. Marte lenti illa í því fyrir mót þeirrar ferðar, í Buenos Aires í Argentínu, veiktist og spjó næturlangt en marði þó 6. sætið, töluvert léttari en hún hafði ætlað sér að vera á keppnisdegi. Ljósmynd/Aðsend

„Þannig að ég fór úr botnsætinu í Larvik árið 2005 í að verða heimsmeistari 15 árum síðar, þá búinn að þyngja mig um tíu kíló, og þarna sérðu nú muninn á okkur Marte, hún var ekki nema tvö ár að verða atvinnumanneskja frá því hún keppti fyrst,“ segir Knut og þessi vöðvastæltu hjón hlæja dátt. „Hún er bara rosaleg frá náttúrunnar hendi, herðabreið og mjög mittismjó. Þegar hún er í keppnisformi þarf hún að fara í barnadeildina til að kaupa sér buxur,“ segir eiginmaðurinn og enn glymur hláturinn.

Talið berst að eftirminnilegum atvikum á keppnisferli hjónanna og þau bera saman bækur sínar. „Það er náttúrulega þetta sem gerðist í Suður-Ameríku,“ segir Marte og vísar til þess þegar hún veiktist nóttina fyrir Opna suðurameríska mótið í body fitness í Buenos Aires í Argentínu í desember, spjó næturlangt og endaði með því að tapa einu kílói í stað þess að fara kílóinu þyngri á sviðið. Varð hún að gera sér sjötta sætið að góðu þar. Þá hefur Knut orðið fyrir barðinu á matareitrun í keppnisferð en sé talinu snúið í örlítið jákvæðari átt eru þau hjón sammála um að keppnisferðalög til Asíu séu nánast uppljómun og æðsta stig allrar upplifunar.

Bryggjan í Tønsberg þar sem þetta viðtal var tekið um …
Bryggjan í Tønsberg þar sem þetta viðtal var tekið um borð í frístundabáti hjónanna. Þessi tæplega 60.000 íbúa bær fyllist af ferðamönnum hvert sumar, hvort tveggja Óslóarbúum á flótta undan stórborgarlífinu og erlendum áhugamönnum um víkingaöldina en rétt utan við Tønsberg fannst Ásubergsskipið árið 1903, 22 metra langskip sem talið er hafa verið smíðað í Vestur-Noregi um 820. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Staflar af reiðufé í Kína

„Ég þekki til á Íslandi og ég veit að þið Íslendingar berið mikla virðingu fyrir kraftasporti, vaxtarrækt, lyftingum og því sem þetta snýst um. Norðmenn eru allt öðruvísi, „we don't care“ slettir Knut, hérna kemst maður ekki einu sinni í blöðin. Allt snýst um skíðagöngu, handbolta og fótbolta. En þegar þú kemur til Dúbaí, Kína, Taílands og Japans er aldeilis annað upp á teningnum, þar er vaxtarræktin risastór. Við vorum nánast tekin í guðatölu í Kína, stoppuð þar á götu í tíma og ótíma og kannski 20 manns að taka myndir af okkur í einu,“ segir Knut frá og þau Marte rifja upp atvinnumannamótið „Belt and Road“ í Xian í Kína haustið 2019.

Þessi Þrándur er ekki í götu. Hin geðþekka Marte Øines …
Þessi Þrándur er ekki í götu. Hin geðþekka Marte Øines frá Þrándheimi helskorin á sviðinu á HM í Portúgal í nóvember í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var í líkamsræktarstöð þarna að æfa fyrir mótið,“ segir Marte frá. „Þar kom til mín kona sem talaði enga ensku og náði að þýða með hjálp símans síns spurningu um hvort ég væri að fara að keppa. Ég játaði að svo væri og þá varð bara allt vitlaust í salnum, fólk þyrptist að mér úr öllum áttum og ég vissi ekkert hvaðan á mig stóð veðrið,“ segir Marte með bros á vör og bætir því við að mótið í Kína hafi einfaldlega verið svakaleg upplifun.

„Sviðið var 163 metra langt, þetta var bara eins og maður væri í sunnudagsgöngutúr. Og öll umgjörðin, svakaleg tónlist og ljóskastarar, risastórir skjáir alls staðar. Kínverjarnir gera allt svo stórt, þetta var alveg ótrúleg upplifun. Þarna lenti ég í þriðja sæti og verðlaunin voru bara greidd út í reiðufé, ég fékk afhentan þvílíkan stafla af seðlum að þurfti nánast hjólbörur. Ég hélt að þetta væru milljónir. Svo var þetta nú ekkert eins mikið og það virtist þegar upp var staðið,“ segir Þrándurinn glaðhlakkalega.

Maggi Bess svakalega flottur

„Að sjá Marte koma upp á þetta svið og heyra allt verða vitlaust í fagnaðarlátum var ein af mínum stærstu upplifunum,“ segir Knut af Kínaförinni, „ég fer nú bara næstum því að gráta við að hugsa um þetta,“ játar hann og reyndar virðist gljástig augna kjötfjallsins breytast örlítið samtímis þeirri yfirlýsingu. Þau hjón eru alltént sammála um að fátt slái Asíulöndin út hvað viðkemur áhuga á vaxtarrækt og umgjörð móta en Knut tekur þó sérstaklega fram að af Norðurlöndunum eigi greinin sér klárlega mest fylgi á Íslandi.

Við höldum okkur örlítið við Ísland áfram, blaðamaður veitti því athygli í viðtalsundirbúningi að Knut og Magnús Bess, einn sigursælasti vaxtarræktarmaður sem land elds og ísa hefur uppfóstrað við sitt brjóst, eru tengdir á Facebook. Hvernig stendur á þessu?

Stál í stál. Með Magnúsi Bess á HM á Spáni …
Stál í stál. Með Magnúsi Bess á HM á Spáni 2019. Knut kveður Magnús magnaðan vaxtarræktarmann sem auk þess bjóði af sér hinn besta þokka. Sá norski er mjög ánægður með viðhorf Íslendinga gagnvart kraftasporti og kveður annað upp á teningnum í Noregi. Ljósmynd/Aðsend

„Við höfum keppt á móti hvor öðrum, það var á HM á Spáni 2019, við vorum þá í sama flokki og hann hafði mig, tók 6. sætið og ég lenti í 7. Það var árið áður en ég varð heimsmeistari, líka á Spáni. Svo hef ég hitt Magga oftar, til dæmis á Oslo Grand Prix-mótinu, við borðuðum saman eftir það mót,“ segir Knut af kynnum þeirra og ber Magnúsi vel söguna. „Maggi er svakalega flottur vaxtarræktarmaður og mikill kunnáttumaður í sportinu svo ekki sé minnst á hve viðkunnanlegur hann er. Ég ber mikla virðingu fyrir honum,“ lýkur Norðmaðurinn frásögninni af þessari samnorrænu ástríðu þeirra Magnúsar, vaxtarræktinni.

„Hann æfir svo hægt“

Talið berst að fyrirkomulagi æfinga og verður Marte þar fyrst fyrir svörum. „Ég æfi á ferskiptu kerfi, tek allan líkamann á fjórum dögum og mínar æfingar eru auðvitað mjög fitness-miðaðar, þar sem áherslan er öll á mjög fíngerðan skurð og að ýmsir smærri vöðvar séu dregnir mjög vel fram. Þessu fylgir töluvert mikil þolþjálfun og fitubrennsla og svo er mataræðið auðvitað það mikilvægasta...“

Marte ásamt Filip, tíu ára gömlum syni sínum. Hún segir …
Marte ásamt Filip, tíu ára gömlum syni sínum. Hún segir keppnislífið ekki bjóða upp á eintómt klausturlíferni, þau Knut borði sælgæti og snakk eins og eðlilegt fólk innan um annars mjög agað mataræði. Ljósmynd/Aðsend

„Við æfum almennt sex daga í viku,“ grípur Knut fram í en eiginkonan er fljót að hrifsa orðið til baka: „Nei nei, við æfum sjö daga vikunnar,“ og þau sættast á sex eða sjö. „Við æfum mikið saman,“ segir Knut, „eini gallinn er að hann æfir svo hægt, hann er alltaf að taka pásur,“ skýtur Marte inn í og gjóar augunum glettnislega að eiginmanni sínum.

Knut játar að með aldrinum hafi hann dregið úr þyngdum og fjölgað heldur endurtekningum til að draga úr hættu á meiðslum. „Þegar ég var 53 ára lyfti ég 300 kílóum í réttstöðulyftu, 210 í bekk og fimm sinnum 250 í hnébeygju en nú er ég hættur í þessum þyngdum, lyfti léttara og er almennt í átta til 16 endurtekningum í hverju setti,“ segir hann og bætir því við að þungar lyftur gagnist vel yngri lyftingamönnum. „Þetta er bara orðið of áhættusamt fyrir mig á þessum aldri.“

Einum kennt – öðrum bent

Knut og Marte eru bæði iðin við að segja öðru lyftingafólki til og kveðast fá miklar fyrirspurnir, til dæmis á Instagram, um æfingar, mataræði og keppnisundirbúning. „Við höfum gaman af að hjálpa fólki og gerum það fyrir smápeninga, ég er hættur að vinna frítt,“ segir Knut og glottir, bendir enn fremur á að þegar fólk þurfi að reiða fram smáupphæð fyrir leiðsögn taki það henni einfaldlega af meiri alvöru og Marte samsinnir honum. „Þetta eru kannski 10 eða 20 manns á mánuði og svo gerist það alltaf annað slagið að ég fylgi fólki alla leið á sviðið sem er að fara að keppa,“ segir Knut.

Knut ásamt fjórum barna sinna. Frá vinstri: Victoria, Knut, Magnus, …
Knut ásamt fjórum barna sinna. Frá vinstri: Victoria, Knut, Magnus, Knut Oskar og Storm. Ljósmynd/Aðsend

Skafheiður himinninn og hlý maísólin úti í þjóðhátíðinni norsku freistar óneitanlega í mollunni í bátnum og hillir undir lokaspurningar. Hvernig er matseðill margverðlaunaðs líkamsræktarfólks sem óhætt er að kalla á heimsmælikvarða?

„Við borðum eiginlega bara allt þótt auðvitað sé meginstefið hjá okkur alltaf hollt og staðgott fæði,“ svarar Marte og kveður lífið í stöðugri líkamsræktarkeppni þó langt frá einhverju klausturlíferni. „Við eigum okkar dag í vikunni og fáum okkur þá sælgæti og snakk, þó það nú væri, en rétt magn og samsetning fæðu hefur allt að segja, ég er hiklaust þeirrar skoðunar að maturinn sé 90 prósent og æfingarnar 10 prósent,“ segir Þrándurinn blákalt.

Kíló af kjöti á dag

„Ég borða 4.000 hitaeiningar á dag, kem ekki í mig 5.000,“ svarar Knut spurningu blaðamanns um gamla þumalputtareglu níunda áratugarins um 5.000 hitaeininga dagneyslu stálmenna. „Ég byrja daginn á 100 grömmum af hafragraut, 160 grömmum af eggjahvítum og fjórum hrökkbrauðsneiðum, það er morgunmaturinn. Svo eru það 800 grömm af kjúklingi og 300 grömm af hrísgrjónum, sem skiptist niður á þrjár máltíðir yfir daginn, og 200 grömm af öðru kjöti að kvöldi með grænmeti og kartöflum eða hrísgrjónum,“ lýsir Knut matseðli dagsins og líklega ekki á hvers manns færi að koma í sig heilu kílógrammi af kjöti daglega.

Glænýtt barnabarn í fjölskyldunni. Knut og sonurinn Patrick Øines Solrunarson. …
Glænýtt barnabarn í fjölskyldunni. Knut og sonurinn Patrick Øines Solrunarson. Heimurinn er lítill því Patrick ræddi við Morgunblaðið í fyrrahaust og sagði þar af lygilegum uppgangi ræstingafyrirtækis síns, Support Service Partner, sem hann gekk út úr framhaldsskóla 17 ára til að stofna ásamt vini sínum, flóttamanni frá Írak. Hjá þeim vinna 300 manns í dag. Ljósmynd/Aðsend

Hann játar að vera sólginn í hamborgara og leyfa sér þá oft, nema vikurnar fyrir keppni. Eins eiga kartöfluflögur vel upp á pallborðið og fylgja flestum máltíðum hans, einn poki af þeim gengur til þurrðar á tveimur dögum, en Marte kveðst taka mikil vítamín, kasein-prótein, sem er hreinsað og þurrkað mjólkurprótein, auk þess að gæða sér á berjahræru, eða „-sjeik“, sættri með súkríni sem hljómar bara nokkuð freistandi.

Fyrsta syninum hampað hálftíma eftir fæðingu. Magnus fæddist 14. ágúst …
Fyrsta syninum hampað hálftíma eftir fæðingu. Magnus fæddist 14. ágúst 1997 og aðhylltust Knut og barnsmóðir hans heimafæðingar. Tvö fyrstu börnin fæddust því heima í stofu. Ljósmynd/Aðsend

Botninn er sleginn í fróðlegar æfinga- og keppnisfrásagnir lyftingahjónanna geðþekku með siglingaáhuganum. Knut og Marte ferðast sem fyrr segir töluvert við strendur Noregs á bátnum og heimsækja þá líkamsræktarstöðvar í hverri höfn því engin grið eru gefin þegar kemur að stálinu. Auk siglinga meðfram suðurströnd Noregs hafa þau gaman af að heimsækja Strömstad í Svíþjóð, Koster, Smögen og Marstrand, allt rómaða staði af náttúrufegurð. Og þar skellum við níðþungum lóðunum niður þennan sólríka 17. maí í Tønsberg og fellum talið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert