Aldrei fleiri Drakúlur

Whitby Abbey.
Whitby Abbey. Unsplash.com/David Hawkes

Nýtt heimsmet hefur verið sett í fjölmennustu samkomu fólks sem klætt er eins og vampírur.

Alls mættu 1.369 manns klæddir sem vampírur á samkomu til minningar þess að 125 ár eru liðin frá því að skáldsagan Drakúla eftir Bram Stoker kom út.

Frá þessu greinir BBC. Samkoman fór fram í Whitby Abbey í Bretlandi en Drakúla heimsótti þann stað í bók Stoker.

Fyrra metið var sett árið 2011 þegar 1.039 manns komu saman sem vampírur í Virginíu í Bandaríkjunum. Vampírurnar í Whitby þurftu að standa saman á sama stað í fimm mínútur til að slá metið.

Jack Brookbank, meðlimur í dómnefnd Heimsmetabók Guinness, sagði að skilyrðin væru nokkuð ströng varðandi leyfilegan búning. Hann verði að innihalda svarta skó, svartar buxur eða kjól, vesti, skyrtu, svarta kápu eða yfirhöfn með kraga og vígtennur.

mbl.is