Árásamaðurinn komst óhindrað inn

Árásarmaðurinn sem sem hóf skotárás á barna­skóla í Uvalde í Texas á þriðju­dag komst inn í bygginguna óhindrað að sögn lögreglu. 

Victor Escalon, talsmaður lögreglunnar, sagði að enginn vopnaður öryggisvörður hafi komið í veg fyrir að árásarmaðurinn hæfi skotárás sem varð 19 börnum og tveimur full­orðnum að bana. Þá er óvíst hvort útidyr skólans hafi verið læstar.

Lögregluyfirvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að bregðast ekki við árásinni nógu skjótt. 

BBC greinir frá því að Escalon hafi varið ákvörðun lögreglu en vitni að árásinni hvöttu lög­reglu til þess að fara inn í skól­ann er skotárás­in hófst. Það gerðu lög­reglu­menn­irn­ir hins vegar ekki um leið. 

Skylda að hafa eftirlit með skólalóðinni

Í gær sagði Escalon á blaðamannafundi að upplýsingar, sem bárust skömmu eftir að árásin átti sér stað, um að árásarmaðurinn hafi skotið öryggisvörð ekki vera réttar. Í raun var enginn öryggisvörður í skólanum.

Reglur skólahéraðs Uvalde kveða á um að skylda sé að starfsfólk sé til staðar sem „hafi eftirlit með útidyrum, bílastæðum og skólalóðinni.“ Þá eiga kennarar að sjá til þess að dyr séu læstar öllum stundum. 

„Við munum komast að því af hverju útidyrnar voru ekki læstar. Kannski voru þær læstar en núna virðast þær ekki hafa verið það,“ sagði Escalon við blaðamenn.

Escalon sagði að lögreglumenn hafi farið inn í skólann rúmum fjórum mínútum eftir að árásarmaðurinn fór inn.

Það leið hins vegar klukkutími áður en lögregla skaut árásamanninn til bana.

19 börn og tveir fullorðnir létust í árásinni.
19 börn og tveir fullorðnir létust í árásinni. AFP

„Þeir fóru ekki inn strax inn útaf skothríðinni sem þeir stóðu undir,“ sagði Escalon. Þá sagði hann að lögreglumenn hafi beðið eftir liðauka.

Óvíst er hversu mörgum skotum árásarmaðurinn hleypti af en að sögn yfirvalda hafði hann meðferðis um 600 skotfærahleðslur. Það er meira en tvöfalt magn er bandarískir hermenn hafa á sér.

Viðbrögðin stangast á við reglur

Viðbrögð lögreglu stangast á við leiðbeiningar sem urðu að stöðlum lögreglu eftir fjöldamorðin í Columbine-menntaskólanum árið 1999.

Leiðbeiningarnar kveða á um að fyrstu lögreglumenn á vettvang skulu gera allt sem þeir geta og eins skjótt og auðið er til þess að stöðva árásina, án þess að bíða eftir liðsauka.

Joe og Jill Biden forsetahjón munu heimsækja Uvalde á sunnudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert