Íhuga annað áhlaup á Kænugarð

Úkraínskur skriðdreki mætir Rússum.
Úkraínskur skriðdreki mætir Rússum. AFP

Þrátt fyrir að Rússum hafi mistekist að hertaka Kænugarð í upphafi innrásar þeirra í Úkraínu eru ráðamenn í Rússlandi að íhuga annað áhlaup á höfuðborgina. Þetta herma heimildir fréttamiðilsins Meduza.

Rússar eru nú að ráðast á Donbass-héruðin af fullum krafti og heimildarmenn Meduzu segja að ef þeim takist að hertaka þau muni það endurvekja vonir Pútíns Rússlandsforseta um að „stórsigur“ Rússlands í stríðinu takist fyrir árslok. Þeir segja að stórsigur í augum Pútíns væri að hertaka Kænugarð.

Úkraínskir hermenn á æfingu.
Úkraínskir hermenn á æfingu. AFP

Segja að Evrópa þurfi að semja við Rússa 

Þrátt fyrir að Rússum hafi mistekist að hertaka Kænugarð í byrjun stríðsins, þá eru háttsettir embættismenn í Rússlandi enn með augun á höfuðborginni. „Þeir munu þreytast á endanum [Úkraínumenn], þetta verður búið áður en það fer að hausta,“ er haft eftir heimildarmanni innan raða Rússa.

Heimildarmennirnir vildu ekki greina frá því við miðilinn hvernig Rússar myndu haga annarri árás á borgina en segja þó að ekki verði hægt að hertaka borgina nema með miklum blóðsúthellingum, sem þýðir að Rússar þyrftu fleiri hermenn.

Kremlverjar eru líka efins um það að Vesturlönd haldi áfram að styrkja Úkraínu með fjármagni og vopnum. „Fyrr en síðar mun Evrópa þreytast á því að veita aðstoð. Löndin þurfa fjármagnið og vopnin fyrir sig sjálf. Þegar það fer að hausta, þá mun álfan þurfa að gera samninga við Rússland um olíu og jarðgas, áður en veturinn kemur,“ segir heimildarmaðurinn við miðilinn.

mbl.is