Twitter-fjárfestir í mál við Musk

Elon Musk, forstjóri Tesla.
Elon Musk, forstjóri Tesla. AFP

William Heresniak, fjárfestir samfélagsmiðilsins Twitter, hefur höfðað hópmálsókn gegn Elon Musk, forstjóra Tesla, og samfélagsmiðlinum sjálfum vegna meðhöndlunar á 44 milljarða dala tilboði hans í fyrirtækið.

BBC greinir frá þessu en því er haldið fram að Musk hafi á ýmsan hátt brotið gegn lögum um fyrirtæki í Kaliforníu.

Hann er sakaður um „ranga hegðun“ þar sem „rangar yfirlýsingar og markaðsmisnotkun“ hafi skapað „kaos“ í höfuðstöðvum Twitter í San Fransisco.

Heresniak sagðist vera að koma fram fyrir hönd sjálfs síns og annarra fjárfesta í svipaðri stöðu.

Tíst Musk hafi verið villandi

Því er haldið fram að Musk hafi hagnast fjárhagslega á því að seinka uppljóstrun á umtalsverðum hlut sínum í Twitter og áætlun hans um að verða stjórnarmaður í fyrirtækinu.

Þá hafi nokkur tíst Musk verið villandi og meðal annars vísað í færslu þar sem Musk sagði að yfirtökutilboðið væri í biðstöðu vegna efasemda hans um fjölda falskra reikninga á miðlinum.

Tístið hafi falið í sér tilraun til að hagræða hlutabréfamarkaði Twitter þar sem hann vissi af fölsku reikningunum.

Reyni að semja um lægra kaupverð

Frank Bottini, lögmaður Twitter-fjárfestanna sagði við BBC að málið hefði veri höfðað þar sem Musk heldur áfram að gera lítið úr fyrirtækinu til að reyna að endursemja um kaupverðið.

Í ræðu á tækniráðstefnu fyrr í mánuðinum sagði Musk að hann útilokaði ekki að gera samning um lægra verð.

Twitter neitaði að tjá sig um málið þegar BBC hafði samband.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert