Kona skaut niður mann sem skaut að hópi fólks

Mikið er deilt um réttinn til að bera byssur í …
Mikið er deilt um réttinn til að bera byssur í Bandaríkjunum þessa daganna. Hér má sjá byssur í stíl hans og hennar á samkomu þeirra sem styðja réttinn til að bera byssur í Michigan í Bandaríkjunum. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Kona skaut mann til bana í sjálfsvörn eftir að maðurinn hóf skothríð í átt að hóp af fólki í afmælisveislu í Bandaríkjunum á miðvikudaginn.

BBC greindi frá þessu í dag.

Dennis Butler 37 ára gamall maður með langan afbrotaferil að baki keyrði að fjórtíu manna hópi sem fagnaði afmælisveislu og hóf að skjóta að hópnum með riffli í Charleston í Vestur-Virginíu í Bandaríkjunum á miðvikudaginn.

Kona í hópnum brást þá skjótt við, dró upp byssu sína og skaut manninn til bana.

Butler hafði þá fyrr um daginn keyrt um götuna þar sem að afmælisveislan fór fram og hafði verið beðinn um að keyra hægar þar sem börn voru að leik í götunni. Snéri hann aftur á staðinn nokkru seinna með riffil af gerðinni AR-15 og skaut úr bílnum sínum að hópnum sem var fyrir utan íbúðarhús að fagna. 

Lögreglan kom að Butler þar sem hann lá látinn með þó nokkur skotsár.

Konan sem skaut Butler átti ekki brotaferil að baki. Að sögn upplýsingafulltrúa lögreglu á svæðinu, Tony Hazelett, var um að ræða almennan borgara. 

„Hún er bara meðlimur samfélagsins sem bar skotvopn sitt löglega og í stað þess að hlaupa í burtu frá ógninni tók hún á henni og bjargaði fjölda lífa,“ sagði Hazlett. Samkvæmt lögreglu á svæðinu mun konan ekki vera ákærð fyrir banaskotið. 

Mikið er deilt um réttinn til að eiga og bera byssur í Bandaríkjunum í kjölfar árásarinnar á grunnskóla í Uvalde í Texas í Bandaríkjunum á þriðjudaginn þar sem 21 manns létu lífið. 

mbl.is