Nemendur þóttust vera látnir

21 kross hefur verið reistur til að minnast þeirra 21 …
21 kross hefur verið reistur til að minnast þeirra 21 sem létust í árásinni. AFP

Íbúar Uvalde í Texas í Bandaríkjunum söfnuðust saman í miðbæ bæjarins fyrr í dag til að heiðra fórnarlömb skotárásinnar sem átti sér stað í grunnskóla bæjarins. Nemendur sem lifðu af árásina sögðu frá því að þeir hefðu þóst látnir til að draga ekki athygli árásarmannsins að sér.

Hin ellefu ára gamla Miah Cerrillo smurði á sig blóði látins bekkjarfélaga svo það liti út fyrir að hún sjálf væri látin en 19 skólafélagar hennar og tveir kennarar létust í árásinni.

„Ég þóttist vera dáinn svo hann myndi ekki skjóta mig,“ sagði Samuel Salinas, tíu ára gamall nemandi við Robb-grunnskólann.

Alanna Deleon syrgir vinkonu sína Annabelle Rodriguez sem lét lífið …
Alanna Deleon syrgir vinkonu sína Annabelle Rodriguez sem lét lífið í árásinni. AFP

Tilkynnti börnunum að þau myndu deyja

Salinas sagði einnig frá því að hann hefði setið í kennslustofunni þegar árásarmaðurinn, Salvador Ramos, kom inn í stofuna og tilkynnti börnunum að þau myndu öll deyja.

„Svo byrjaði hann bara að skjóta,“ sagði Salinas við fréttastofu ABC.

Yfirvöld í Texas viðurkenndu seint í gær að allt að 19 lögreglumenn hefðu verið á gangi skólans í meira en klukkutíma án þess að aðhafast nokkuð og sögðu það „ranga ákvörðun“.

Fórnarlambanna er minnst í Uvalde, Texas.
Fórnarlambanna er minnst í Uvalde, Texas. AFP

Fær martraðir af árásinni

Annar nemandi, Daniel, sagðist hafa séð árásarmanninn skjóta kennarann sinn í gegnum glerið á kennslustofunni. Hann sagði kennarann hafa talað við nemendurna, þó svo hún hafi legið særð á gólfinu, og sagt þeim að halda ró sinni og að hreyfa sig ekki.

Daniel var loks bjargað af lögreglunni sem braut rúðu í kennslustofunni. Síðan þá hefur hann fengið endurteknar martraðir af árásinni.

21 kross hefur verið reistur í kringum gosbrunn í bænum. Einn fyrir hvert fórnarlamb.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, mun heimsækja Uvalde á sunnudaginn og krefjast frekara eftirlits með skotvopnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert