Loka á um 90% af innflutningi á olíu frá Rússlandi

Ursula von der Leyen.
Ursula von der Leyen. AFP

Leiðtogar ríkja Evrópusambandsins ákváðu í dag, mánudag, að banna stærstan hluta innflutnings olíu frá Rússlandi. Var þessi ákvörðun tekin eftir að leiðtogarnir miðluðu málum við Ungverjaland. Innflutningsbannið er hluti að refsiaðgerðum gegn Rússlandi vegna stríðsins í Úkraínu. 

Vikum saman hafa ríki Evrópusambandsins deilt um hvaða leið eigi að fara þegar kemur að innflutningi rússneskrar olíu og jarðgass til Evrópu. Lengst af stóð til að bann yrði sett á allan innflutning olíu en þær áætlanir mættu harðri andstöðu Viktors Orban forsætisráðherra Ungverjalands. 

Leiðtogar ríkjanna komust að þeirri niðurstöðu eftir fundarhöld í Brussel á mánudag að olía sem flutt er inn eftir leiðslukerfum verði undanþegin innflutningsbanninu, eftir að yfirvöld í Búdapest lýstu því yfir að bann við innflutningi myndi verða efnahagi landsins að falli. 

„Samningur um bann á innflutningi á rússneskri olíu til ESB. Þetta um leið nær yfir tvo þriðju útfluttrar olíu frá Rússlandi, og sker á stóran hluta fjármögnunar stríðsvélar landsins,“ sagði Charles Michel forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins í kvöld. 

Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, segir að bannið muni „í rauninni loka á um 90 prósent af olíuinnflutningi frá Rússlandi til Evrópusambandsins fyrir lok árs,“ þar sem bæði Pólland og Þýskaland hafa samþykkt að hætta innflutningi eftir leiðslukerfum. 

Bannið eru á meðal þyngstu refsiaðgerða sem Evrópusambandið hefur samþykkt gegn Rússlandi til þessa. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert