Fimmtán þúsund tilfelli meintra stríðsglæpa tilkynnt

Iryna Venediktova, helsti saksóknari Úkraínu, á skjánum.
Iryna Venediktova, helsti saksóknari Úkraínu, á skjánum. AFP

Um það bil fimmtán þúsund tilfelli meintra stríðsglæpa hafa verið tilkynnt í Úkraínu frá innrás Rússa í febrúar. Að sögn saksóknara í Úkraínu berast 200 til 300 tilkynningar um stríðsglæpi daglega. 

Borin hafa verið kennsl á 600 Rússa sem grunaðir eru um glæpi og saksókn er hafin í 80 tilfellum. Á meðal hinna grunuðu eru „háttsettir hermenn, stjórnmálamenn og áróðursfulltrúar,“ að sögn Irynu Venediktovu saksóknara. 

Yfirvöld í Rússlandi hafa vísað ásökununum á bug. 

Að sögn Venediktova áttu flestir meintra stríðsglæpa sér stað í Donbas-héraðinu og er um að ræða fleiri þúsund tilvik. Á meðal þeirra er m.a. nauðungarflutningur fullorðins fólks og barna til Rússlands, pyntingar, morð á almennum borgurum, kynferðisbrot og eyðilegging innviða. Þó að rannsókn á meintum stríðsglæpum í Donbas sé hafin hafa úkraínsk yfirvöld ekki aðgang að svæðum undir stjórn Rússa. Rannsóknin byggist þannig að mestu leiti á viðtölum við flóttafólk frá svæðinu og rússneskum stríðsföngum. 

Alþjóðlegi glæpadómstóllinn hefur sent stærsta rannsóknarteymi í sögu dómstólsins til Kænugarðs til þess að aðstoða úkraínsk yfirvöld. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert