Breyta nafni Tyrklands

Tyrkneski fáninn.
Tyrkneski fáninn. AFP

Tyrkland, sem áður hefur á alþjóðavettvangi gengið undir nafninu Turkey, vill héðan í frá heita Türkiye. Sameinuðu þjóðirnar hafa til að mynda fallist á þessa beiðni, að því er kemur fram í frétt BBC.

Nokkrar alþjóðlegar stofnanir til viðbótar verða beðnar um að breyta nafninu sem hluti af nýrri ímyndarherferð landins sem forsetinn, Recep Tayyip Erdogan, hóf seint á síðasta ári.

„Türkiye er besta framsetningin og tjáningin á menningu, siðmenningu og gildum tyrknesku þjóðarinnar,“ sagði Erdogan í desember.

Recep Tayyib Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyib Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Flestir Tyrkir þekkja nú þegar heimaland sitt sem Türkiye. Hins vegar hefur enska heiti landsins, Turkey, mikið verið notað, meira að segja í landinu sjálfu.

Framburður hins nýja nafns er nokkuð ólíkur Turkey en Türkiye er borið fram Túrkíe á íslenskan máta.

Ekki gott að heita það sama og kalkúnn

Ríkissútvarp Tyrklands, TRT, var fljótt að breyta nafninu þegar breytingin var tilkynnt í fyrra og útskýrði að meðal ástæðna fyrir breytingunni væru tengsl nafnsins Turkey við kalkúninn sem er jafnan tengdur jólum, nýári og þakkargjörðarhátíð. Turkey er enska heitið yfir kalkún.

Einnig hefur verið bent á að Cambridge orðabókin skilgreinir Turkey m.a. sem „eitthvað sem mistekst illa“ eða „heimsk eða kjánaleg manneskja“.

Tyrkland er ekki fyrsta landið til að breyta um nafn, t.d. varð Makedónía nýlega að Norður-Makedóníu og Svasíland að Esvatíní. Þá hét Íran eitt sinn Persía, Taíland hét Síam og Ródesía heitir nú Simbabve.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert