Þrumur eða sprengjuárás

Jaroslav og félagar hans hafa átt nokkra langa daga upp …
Jaroslav og félagar hans hafa átt nokkra langa daga upp á síðkastið þar sem þeir keyra með vistir og nauðsynjavörur bæði innan Ódessu, en einnig til bæja og borga lenga í burtu.

Þrumuveður í Úkraínu getur vakið upp ótta hjá íbúum, enda fjölmargir vanir því að heyra reglulegar sprengingar. Flugskeytaárásir og aðrar sprengjuárásir halda áfram víða um landið, jafnvel á þeim stöðum sem ættu að vera í rólegri kantinum eftir að sókn Rússa var hrint til baka í norðurhluta landsins. Jaroslav fer í ferð nokkuð nálægt víglínunni með vistir, en vinnan er komin á fullt á ný hjá Sergei, sem enn bíður þess að geta hitt eiginkonu sína og son á ný.

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessu í suður­hluta lands­ins, Ser­gei í Lvív í vest­ur­hluta lands­ins og Kar­íne í borg­inni Karkív í aust­ur­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is upp­lif­un­um sín­um og greina frá því hvað efst er í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð braust út í landi þeirra.

Fimmtudagur 2. júní

Jaroslav í Ódessu

Síðustu helgi fór ég og teymið mitt í leiðangur með vistir og nauðsynjavörur út fyrir borgina. Við lögðum af stað klukkan 6:45 um morguninn og héldum til Vosnesensk sem er minni bær ekki langt frá Míkolaiv. Á ferðalaginu upplifðum við bergmál stríðsins. Við sáum meðal annars brú sem hafði verið eyðilögð af úkraínska hernum til að koma í veg fyrir framgang Rússa.

Við mættum á bráðabirgðastöð á vegum Rauða krossins, en í Vosnesensk eru sjálfboðaliðar sem aðstoða um fimm þúsund manns sem eru að koma sér fyrir í bænum á ný. Auðvitað gátum við ekki komið með vistir fyrir alla, en við gátum allavega reynt að minnka vandamál þeirra að einhverju leyti.

Andrúmsloftið í Vosnesensk var mjög rólegt og það var bara hlýja og bros sem mætti okkur frá íbúunum. Eftir stoppið þar var hins vegar komið að því að halda í áttina að Míkolaiv, en við fórum í skotheld vesti áður en við keyrðum þangað. Á leiðinni að borginni fórum við með lyfjapakka, bleyjur og mat á nokkra staði þar sem við vissum af mikilli þörf, en auk þess dreifðum við slatta af vatni.

Á ferðinni í nágrenni Kerson þar sem sumar byggingar hafa …
Á ferðinni í nágrenni Kerson þar sem sumar byggingar hafa farið illa í sprengjuregni Rússa. Ljósmynd/Jaroslav

Síðasti áfangastaðurinn áður en við ætluðum að fara til baka var svo í útjarðri borgarinnar Kerson, en það er enn mjög hættulegur staður vegna reglulegra eldflaugaárása. Við komum við hjá vinum okkar í hernum og færðum þeim ýmsar vistir. Þeir sýndu okkur í leiðinni staði þar sem sprengjuárásir Rússa höfðu valdið skemmdum og jafnvel eina ósprungna sprengju sem var á götunni. Við stoppuðum hins vegar stutt vegna hættunnar þarna og héldum til baka til Ódessu, með viðkomu í saumaverksmiðju. Við vorum um hálfan sólarhring á ferðinni, en allt endaði þetta vel og við vorum sáttir með árangurinn.

Með fólki á vegum Rauða krossins í Vosnesensk.
Með fólki á vegum Rauða krossins í Vosnesensk.

Í sannleika sagt líður manni nokkuð skringilega eftir svona ferð. Bæði líður manni vel, en á sama tíma er maður sorgmæddur. Ég vona að enginn ykkar muni þurfa að upplifa það að vera í svona nálægð við stríð með tilheyrandi sársauka, reiði og sorg.

Eitt af síðustu verkefnum dagsins var að fara með vistir …
Eitt af síðustu verkefnum dagsins var að fara með vistir til hermanna í nágrenni Kerson.

Karíne í Karkív

Sumarið er byrjað. Um daginn var dagur barna en Rússar halda áfram að brjóta á réttindum barnanna okkar. Þeir hafa drepið þau og einnig rænt fjölmörgum og flutt til Rússlands. Í gærnótt vöknuðum við upp við sprengingar frá flugskeytum. Sprengingarnar voru svo háværar að glerið í gluggunum hjá okkur hristist og viðvörunarkerfi bíla fóru í gang.

Flugskeytin hæfðu meðal annars skóla í Saltivka hverfinu. Kona lést og nokkrir aðrir særðust, en fólk hafði varið nóttinni í skólabyggingunni þar sem það taldi sig vera öruggt. Þetta er hræðilegt, en frænka eiginmanns míns útskrifaðist meðal annars frá þessum sama skóla. Í skólanum er safn um rússneska skáldið Sergei Jesenín og börnin þar lærðu bæði um úkraínskar og rússneskar bókmenntir. Ég óttast að rússneskum bókmenntum verði hafnað í auknum mæli framvegis.

Svipaða sögu var að segja frá deginum áður þegar dagurinn var rólegur, en um nóttina var mikið um mjög háværar sprengingar.

Ég fór í gær til augnlæknis sem skoðaði sjónina hjá mér, en hann hóf starfsemi aftur fyrr í vikunni. Það kom ágætlega út, en ég hef hingað til ekki notað gleraugu. Ætli ég fari samt ekki að panta eitt par til að bæta sjónina aðeins.

Sumarið er komið í Karkív.
Sumarið er komið í Karkív. Ljósmynd/Karíne

Í gær gekk yfir þrumuveður með hellirigningu. Við heyrðum reglulega þrumur og allir hlustuðu og veltu fyrir sér hvort þetta væri þruma eða sprenging. Oftast var þetta þó þruma á þeim tíma. Um kvöldið kom svo sólin fram á ný, en allt er farið að vaxa og spretta vel hér í nágrenninu.

Fyrir tveimur dögum kom vinkona mín hún Tatiana í heimsókn, en hún flúði Karkív þegar stríðið hófst og fór með eiginmanni sínum til Póllands. Hún ætlaði aðeins að koma hingað í stutta dvöl í þetta skiptið, en hún náði sér í vinnu í Póllandi þar sem flóttafólki frá Úkraínu hefur verið tekið mjög vel. Í gær klippti ég svo hárið á henni, en lengi vel klippti ég bæði ömmu mína og fjölmargar vinkonur. Nú er hárgreiðslustofan sem ég fór alltaf á lokuð þannig að ég hef undanfarna mánuði klippt mig sjálf.

Réttlætið er byrjað að ná fram í réttarhöldum yfir rússneskum hermönnum fyrir stríðsglæpi sína gegn almennum borgurum í stríðinu. Meðal annars voru tveir rússneskir hermenn fundnir sekir um að hafa gert stórskotaliðsárás á rólegt íbúðahverfi hér í Karkív og þeir fengu báðir 11 árs og sex mánaða fangelsi.

Stríðið heldur annars áfram í austurhlutanum í Donbas-héruðunum. Rússar hafa sérstaklega verið að ná árangri í Donetsk-héraðinu, en hermenn okkar hafa á móti náð að frelsa nokkra bæi og svæði í Kerson-héraðinu.

Karíne rifjaði nýlega upp skólaárin með vinkonu sinni og gróf …
Karíne rifjaði nýlega upp skólaárin með vinkonu sinni og gróf upp þessa mynd við það tækifæri.

Sergei í Lvív

Undanfarnir dagar hafa verið annasamir á skrifstofunni. Það er fullt að gera, margar pantanir og fjöldi símtala sem þarf að hringja. Ég viðurkenni alveg að ég var farinn að sakna daganna þegar það var mikið að gera í vinnunni. Það er líka gott að sjá og heyra í viðskiptavinunum aftur.

Veðrið er líka mjög gott og ég hef hjólað aðeins, meðal annars í vinnuna. Í gær fór ég í mat til foreldra minna en á þeim tíma fóru loftvarnaflauturnar í gang og upplýsingar bárust um eldflaugar sem væru á leið til borgarinnar. Við lásum svo að eldflaugarnar höfðu hæft lestarinnviði nálægt borginni. Sem betur fer var tjónið ekki mikið og enginn lést, en Rússar eru að reyna að eyðileggja innviði áfram.

Ég talaði við eiginkonuna á þriðjudaginn um framtíðina. Mögulega munu hún og strákurinn okkar snúa aftur heim eftir mánuð. Ég sakna þeirra rosalega mikið. Stríðið mun líklegast halda áfram, en þau geta ekki verið erlendis um alla framtíð.

Staðan á víglínunni er erfið, sérstaklega í Severodonetsk þar sem óvinurinn hefur náð hluta borgarinnar. Það virðist eins og herinn okkar sé hægt og rólega að hörfa frá Donbas-héruðunum. Auðvitað eru mannslíf mikilvægari en svæði, en með þessu eru Rússar að ná fram samningsstöðu.

Um síðustu helgi fór ég ásamt félaga mínum í stutta hjólaferð rétt fyrir utan Lvív. Loksins náði maður að fara út í náttúruna, endurnæra sig og slaka á. Við stoppuðum einnig og fengum okkur dýrindis hádegismat í einu úthverfinu. Ég elska svona ferðir og þær eru sérstaklega mikilvægar fyrir geðheilsuna. Ég hitti einnig vin minn eitt kvöldið og við spiluðum saman á bassagítara.

Enn einu sinni þakka ég úkraínska hernum fyrir öryggið og að halda flugskeytum óvinarins frá okkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert