700 greinst með apabólusmit

Skimað eftir apabólu við komu fólks á flugvöllinn í Chennai …
Skimað eftir apabólu við komu fólks á flugvöllinn í Chennai í Indlandi. AFP

Fleiri en 700 manns hafa nú greinst með apabólusmit á heimsvísu en þetta kom fram í tilkynningu sem sóttvarnarmiðstöð Bandaríkjanna (CDC) birti í gær. Þar af hefur 21 smitast í Bandaríkjunum.

Fram kemur í tilkynningunni að sextán af fyrstu sautján smitunum í Bandaríkjunum fundust í mönnum sem stunda kynmök með öðrum mönnum. Af þeim sextán voru fjórtán smit tengd ferðalögum.

Allir þeir smituðu hafa nú náð bata eða er að batna og hafa engin af smitunum valdið dauða. Tekið er fram í tilkynningunni að apabóla sé sjaldgæfur sjúkdómur sem sé skyldur bólusótt en ekki jafn alvarlegur. Helstu einkenni apabólu eru útbrot sem dreifa sér um líkamann, hiti, kuldaköst og liðverkir. 

Áður fyrr var apabóla einungis vandamál í vesturhluta- og miðri Afríku en síðan í maí hefur sjúkdómurinn dreift sér. Fyrst um Evrópu og svo um allan heim. Til dæmis voru 77 smit staðfest í Kanada í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert